149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

kjör öryrkja.

[10:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi búsetuskerðingarnar, eins og hv. þingmaður kallar það, lít ég þannig á að við þurfum að komast til botns í því hver hin eiginlegu réttindi viðkomandi einstaklinga voru. Að fenginni niðurstöðu um það — en Tryggingastofnun hefur sagt að fara þurfi yfir hvert og eitt mál sérstaklega — skiptir fjármögnun þess í sjálfu sér engu máli vegna þess að þar er bara um lögbundin réttindi að ræða sem við verðum að uppfylla. Það er þá bara loforð sem stendur. Það er þá krafa sem fólk á á ríkið og það reiknast af ríkissjóði, hvort sem menn hafa fjármagnað það sérstaklega eða ekki. Við bíðum niðurstöðu þessarar yfirferðar um heildarfjárhæðina.

Varðandi umræðu um það hvað sé hæfileg framfærsla í þessu landi held ég að við getum tekið marga daga í að ræða það sérstaklega. Ég er spurður að því hvort 392.000 séu hæfilegt. Ég hef í sjálfu sér engar forsendur til að segja það sérstaklega en þetta eru þessar opinberu viðmiðunartölur. Þetta eru auðvitað viðmið að gefnum fjölmörgum þáttum og ég held að staða fólks sé mjög mismunandi. Fyrir suma er þetta eflaust allt of lítið og fyrir aðra mögulega nægilegt til að komast af. Í grunninn þurfum við að sammælast um að reyna að hámarka verðmætasköpun í landinu þannig að við getum stutt hvert við annað.