149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

efling iðn- og verknáms.

[11:02]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hér er vakin athygli á mjög mikilvægu máli sem við ræðum nú töluvert og færist í rétta átt en ég er þeirrar skoðunar að við gætum gert miklu betur. Iðnmenntun og iðnaður er einfaldlega grundvöllur nýsköpunar í landinu. Þessi ríkisstjórn og aðrar og þingið hefur forgangsraðað fjármunum til að efla menntakerfið í heild sinni og það á auðvitað að skila sér fyrir iðnmenntun sömuleiðis. Ég tel að frumvarp hv. þm. Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur skipti líka máli, ekki bara samkvæmt orðanna hljóðan og í framkvæmd, heldur einnig varðandi þá viðhorfsbreytingu sem hv. þingmaður nefnir og ég sjálf er mjög upptekin af.

Ég held að að hluta til sé ákveðin rót vandans einfaldlega viðhorf okkar sjálfra til þessarar menntunar og oft viðhorf foreldra þegar börn eru að velja sér nám. Það er auðvitað litað af því hvernig við höfum búið til kerfið, að það sé alltaf öruggara að klára fyrst stúdentspróf o.s.frv., jafnvel þó að krakkar séu fyrir löngu búin að ákveða að þau ætli sér að velja iðnmenntun og starfa á því sviði í framtíðinni. Ég held að viðhorfsbreyting sé algjört lykilatriði í þessu og þar skiptir máli hvernig við öll tölum, líka foreldrar, og sömuleiðis að kerfið sé ekki þannig að við séum raunverulega að mismuna eða lyfta annarri menntun á kostnað iðnmenntunar.

Nýsköpunarstefnan og menntastefnan munu þurfa að tala saman og munu tala saman. Það er algjört lykilatriði að það sem sagt er og lagt til í þessum stefnum falli saman í eitt. Það skiptir máli að þetta sé unnið saman. Ég get ekki annað sagt en að ég sé sammála þeim áherslum sem hv. þingmaður nefnir og ítreka það aftur að iðnmenntun og iðnaður er grundvöllur nýsköpunar. (Forseti hringir.) Ég held að við getum gert miklu betur í að tengja þessa þætti saman, að háskólagreinar, atvinnulífið og skólakerfið líka nái að vinna betur saman. (Forseti hringir.) Þetta allt skiptir máli.