149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

efling iðn- og verknáms.

[11:05]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og tek heils hugar undir það sem hún sagði. Hvað viðhorfsbreytinguna varðar er ég alveg sammála ráðherra að þetta skiptir líka máli á heimilunum, meðal foreldranna, að vekja einnig áhuga á iðnnámi. Það skiptir máli. Ég er sammála því.

Það er annað sem mig langar að koma aðeins inn á. Gerð var rannsókn við Háskólann á Bifröst á síðasta ári, minnir mig, þar sem spurt var um viðhorf til iðnnáms meðal nemenda og þeirra sem hafa starfað í greininni. Niðurstaðan er svolítið athyglisverð, að fram kom að margir ófaglærðir væru að starfa í þessum greinum, jafnvel eingöngu talandi tungumál í þeirra heimalandi, þ.e. erlendir starfsmenn. Og það var sammerkt hjá þessum viðtalshópi í rannsókninni að allir hefðu miklar áhyggjur af því að fólk væri að starfa í þessum geira sem væri ekki með tilskilin réttindi og verið væri að gjaldfella námið í raun og veru hvað þetta varðar. (Forseti hringir.)

Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig er opinberu eftirliti með þessu háttað? Það er afar mikilvægt í mínum huga að einstaklingar sem hafa löggildingu vinni í þessum greinum.