149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

norrænt samstarf 2018.

523. mál
[11:29]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni, starfandi formanni Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, ágæta framsögu. Þegar ljósin fóru að blikka hugsaði ég að við hefðum betur varið meiri tíma í þetta því að af mjög mörgu er að taka í þessu samstarfi eins og hv. þingmaður fór vel yfir. Listinn yfir öll þau verkefni sem við tökum þátt í í þessu samstarfi kom mér sjálfum nánast á óvart og hef ég þó starfað í þessum málum. Það er gríðarlega mikilvægt, forseti, að við sinnum þessu starfi vel því að gott samstarf við okkar nánustu nágranna, bæði í Vestnorræna ráðinu og Íslandsdeild Norðurlandaráðs, er lykilatriði í utanríkisstefnu okkar að mínu viti; að eiga sem best og nánast samstarf við það fólk sem stendur okkur næst í landfræðilegum og hugmyndafræðilegum skilningi.

Sjálfur hef ég borið gæfu til að sitja í tveimur nefndum í Norðurlandaráði eins og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir kom inn á í skýrslu sinni, annars vegar í sjálfbærninefndinni og hins vegar nú nýverið í velferðarnefndinni. Engum blöðum er um það að fletta hve gríðarlega lík viðfangsefnin eru sem öll löndin takast á við. Ég sit þar og svo hér í þessum sal og í nefndum Alþingis og sé að við erum að miklu leyti að kljást við sömu viðfangsefnin í öllu starfinu. Ég hef einnig setið í þingmannaráði Eystrasaltsráðsins, BSPC. Þar erum við aftur að vinna að sömu hugðarefnum, umhverfismálum tengdum hafinu, hvernig hægt er að draga úr mengun þegar kemur að skipasiglingum og einnig því sem fer í hafið af landi. Þetta samstarf er því gríðarlega mikilvægt og við eigum að vera stolt af því að vera rödd á jafnræðisgrunni í því.

Mig langar einnig að koma inn á það sem ekki er síst mikilvægt, og raunar hef ég leitt hugann að því að það sé kannski mikilvægasti þáttur Norðurlandasamstarfs, sem hv. starfandi formaður Íslandsdeildar kom inn á hér í blálok skýrslunnar, en það er samvinna á milli Norðurlandanna um afnám stjórnsýsluhindrana. Það er kannski það starf sem fólk upplifir mest á eigin skinni án þess endilega að verða vart við það. Það að geta farið á milli landa, haldið réttindum sínum og ef í ljós kemur að ekki er samræmi á milli réttinda milli landa sé sérstaklega hægt að beina því ósamræmi í þann farveg að yfir það setjist hópur og starfsfólk sem geri sitt til að afnema þær stjórnsýsluhindranir. Það er lykillinn að því umhverfi sem við viljum hafa, að við á Norðurlöndunum getum fært okkur til og frá á milli landa að vild. — Nú var ég næstum búinn að segja, forseti, „efter behag“ þar sem ég er að tala um Norðurlandasamstarf, en þar sem þingmálið er íslenska gat ég rétt svo setið á mér.

Í Norðurlandasamstarfinu hefur mikil áhersla verið lögð á fólkið sjálft, að þetta snúist ekki um nefndir og að tala fallega á hátíðarstundum. Í því starfi er margt mjög mikilvægt, sérstaklega það sem snýr að ungu fólki. Þar höfum við í Íslandsdeildinni staðið þétt saman. Því miður hafa stundum komið upp hugmyndir um niðurskurð. Víða í heimi er verið að velta fyrir sér hvort verið sé að veita of mikla fjármuni í slík verkefni eða hvar sé hægt að spara. En þar höfum við staðið þétt saman um að staðinn verði sérstakur vörður um allt sem lýtur að starfi ungs fólks. Þar er ég sérstaklega að horfa til fyrirbæra eins og Nordjobb þar sem ungmenni geta farið á milli landa, unnið ýmiss konar störf og reynt það á eigin skinni á mótunarárunum að búa í einu af nágrannaríkjum okkar.

Að lokum vil ég taka undir með hv. starfandi formanni um þá eindrægni og samstöðu sem ríkir í Íslandsdeildinni. Við finnum það þegar við vinnum saman að málefnum okkar á þessum vettvangi að þar tölum við einum rómi. Þar erum við sammála um málefni Íslands og þær áherslur sem við viljum hafa í þessu starfi. Fyrir mér er Norðurlandasamstarfið hornsteinn í utanríkispólitík Íslendinga. Við eigum að halda áherslum okkar í utanríkispólitík á þessum friðsamlegu nótum samninga, samræðna og samvinnu.