149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

vestnorræna ráðið 2018.

529. mál
[11:36]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég flyt Alþingi skýrslu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2018. Ég stikla á stóru en ítarleg útgáfa skýrslunnar er fyrirliggjandi, bæði í rituðu formi og á vef Alþingis.

Áður en ég hefst handa við skýrslugreinargerðina langar mig að horfa um öxl í örstutt sögulegt yfirlit. Lögþing Færeyja, Landsþing Grænlands og Alþingi stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í Nuuk á Grænlandi 24. september 1985 sem samstarfsvettvang þinganna þriggja. Með því var formfest samstarf landanna sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd eða Vestnorden.

Stofnun ráðsins var fyrst og fremst byggð á sameiginlegum bakgrunni landanna á ýmsum sviðum, bæði með hliðsjón af nánum sögulegum og menningarlegum arfi og tengslum sem og sameiginlegum hagsmunum í umhverfis-, samgöngu- og efnahagsmálum. Á aðalfundi ráðsins árið 1997 var nafni þess breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr starfssamningur. Á sama fundi voru markmið samstarfsins skerpt, nýjar vinnureglur samþykktar, ákveðið að setja á fót skrifstofu ráðsins og ráða framkvæmdastjóra. Lögþing Færeyinga, Alþingi Íslendinga og Landsþing Grænlendinga velja hvert um sig sex fulltrúa til setu í Vestnorræna ráðinu og eru það 18 aðilar samtals.

Markmið Vestnorræna ráðsins eru að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, vernda auðlindir og menningararfleifð Norður-Atlantshafssvæðisins, stuðla að samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna Vestur-Norðurlanda um mikilvæg mál og vera þingræðislegur tengiliður milli vestnorrænna samstarfsaðila. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfismál, auðlinda- og samgöngumál, björgunar- og öryggismál, málefni norðurslóða, heilbrigðismál, menningarmál og íþrótta- og æskulýðsmál, svo fátt eitt sé nefnt. Ársfundur fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins skipuleggur verkefni og störf ráðsins milli ársfunda. Forsætisnefnd samanstendur af einum fulltrúa frá hverju landi, formanni, fyrsta varaformanni og öðrum varaformanni. Formennska í ráðinu skiptist árlega á milli landanna þriggja. Ráðið getur einnig skipað sérstakar vinnunefndir, eins og raunin hefur verið, um einstök mál. Ársfundur samþykkir ályktanir um ýmis mál sem síðan eru lögð fyrir þjóðþing landanna sem þingsályktunartillögur. Það er merkilegt. Samþykki þing ályktanirnar er þeim beint til viðeigandi ráðuneyta sem bera ábyrgð á að hrinda ályktunum í framkvæmd. Á hverjum ársfundi er tekin ákvörðun um hvaða þema verður tekið fyrir á þemaráðstefnu ráðsins árið eftir.

Árið 2002 var undirritaður samningur um samstarf Vestnorræna ráðsins og ríkisstjórna Vestur-Norðurlanda. Með samningnum var kveðið á um að ríkisstjórnir landanna þriggja gæfu ráðinu skýrslu um stöðu framkvæmda gildandi ályktana fyrir ársfund ráðsins. Forsætisnefnd gæfist auk þess tækifæri til að funda með ráðherrum landanna í tengslum við Norðurlandaráðsþing ár hvert. Eftir því sem kostur væri tækju ráðherrar landanna einnig þátt í fundum Vestnorræna ráðsins. Oft hefur það verið gert en annir hindra stundum.

Vestnorræna ráðið vinnur jafnframt að framgöngu markmiða sinna með virkri þátttöku í norrænu og evrópsku samstarfi og norðurskautssamstarfi. Árið 2006 var undirritaður samstarfssamningur Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs. Samningurinn veitir Vestnorræna ráðinu og Norðurlandaráði gagnkvæman þátttökurétt hvoru á fundum annars og formgerir samstarfið á milli ráðanna frekar. Samningurinn gerir það m.a. mögulegt að ályktanir Vestnorræna ráðsins séu teknar til umfjöllunar í Norðurlandaráði. Árið 2011 héldu Vestnorræna ráðið og Norðurlandaráð sína fyrstu sameiginlegu ráðstefnu sem fjallaði um öryggi á sjó á Norður-Atlantshafi. Önnur ráðstefna var svo haldin árið 2013 og fjallaði um nýtingu auðlinda hafsins og sú þriðja árið 2016 um sjálfbæra svæðisbundna þróun á norðurslóðum. Allt eru þetta mikilvæg hagsmunamálefni svæðisins. Árið 2008 varð að samkomulagi milli Vestnorræna ráðsins og Evrópuþingsins að halda reglubundna upplýsinga- og samráðsfundi. Auk þess hefur Vestnorræna ráðið áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál. Loks gerði ráðið samstarfssamning við Hringborð norðurslóða árið 2016.

Virðulegur forseti. Á síðasta ári hélt Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins níu fundi þar sem til umfjöllunar voru málefni líðandi stundar og undirbúningur fyrir sameiginlega fundi Vestnorræna ráðsins. Vestnorræna ráðið kemur saman tvisvar á ári, til þemaráðstefnu í janúar og til ársfundar í ágúst eða byrjun september. Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins var á síðastliðnu ári haldin í Ilulissat á Grænlandi í janúar. Umfjöllunarefni þemaráðstefnunnar voru tækifæri og áskoranir í ferðaþjónustu á Vestur-Norðurlöndum. Í máli fyrirlesara kom fram að bæði Færeyingar og Grænlendingar hefðu notið góðs af vinsældum Íslands meðal ferðamanna. Fyrirlesarar fjölluðu m.a. um möguleika á aukningu í ferðaþjónustu með nýjum flugvöllum sem ákveðið er að reisa við Nuuk og Ilulissat. Áskoranir fælust fyrst og fremst í að dreifa álaginu til að vernda náttúruna og lífsmáta íbúanna. Ekki mætti horfa fram hjá auknum kostnaði sem skapaðist af aukningu í ferðaþjónustu, t.d. við styrkingu innviða.

Á aukaársfundi samhliða þemaráðstefnunni var ítrekuð fyrri samþykkt Vestnorræna ráðsins um að setja á fót sérnefnd um málefni norðurslóða. Það var gert og fulltrúi Íslands í þeirri sérnefnd er Bryndís Haraldsdóttir. Einnig var samþykkt verkefnatillaga um áhersluefni ráðsins á vettvangi Norðurskautsráðs. Í verkefnatillögunni var ákveðið að Vestnorræna ráðið myndi leggja áherslu á auknar rannsóknir á vímuefnanotkun ungmenna á norðurslóðum, í samstarfi við fyrirtækið Rannsóknir og greiningu. Árangur þeirra hefur vakið athygli víða um lönd og raunar veitir fyrirtækið þjónustu í fjölmörgum löndum. Verkefnatillagan gerði ráð fyrir að sett yrði á fót sérstakt verkefni á vettvangi Norðurskautsráðs og að skrifstofa Vestnorræna ráðsins færi með verkefnastjórn og aðstoðaði við framkvæmdina. Forsætisnefnd og ársfundur fjölluðu talsvert um málið á árinu og rætt var að fara þá leið að vekja athygli á starfsemi Rannsókna og greiningar á fundi á vegum íslensku formennskunnar í Norðurskautsráði nú í haust.

Ársfundur Vestnorræna ráðsins var haldinn í Lögþinginu í Þórshöfn í Færeyjum 4.–5. september og var það í annað sinn sem ársfundur var haldinn í þingsal aðildarlands. Utanríkisráðherrar landanna þriggja tóku þátt í leiðtogafundi sem bar yfirskriftina „Staða Vestur-Norðurlanda í nýjum veruleika alþjóðastjórnmálanna“. Þemað átti uppruna sinn í ályktun Vestnorræna ráðsins frá árinu 2016 um að halda sameiginlega ráðstefnu þar sem sú staða yrði krufin. Ráðstefna þessi var einmitt haldin í Reykjavík í gær. Utanríkisráðherrar landanna stóðu að málstofu um málefnið á Hringborði norðurslóða í október og tekin var sú ákvörðun á ársfundi að þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins, sem haldin var í gær, yrði lögð undir málefnið í nokkrum málstofum sem yrðu opnar almenningi.

Ráðstefnan tókst afar vel og var fróðleg. Hana má finna á upptöku á heimasíðu Vestnorræna ráðsins.

Á ársfundi voru samþykktar tvær ályktanir sem báðar voru lagðar fram af Íslandsdeild. Í þeirri fyrri voru ríkisstjórnir Vestur-Norðurlanda hvattar til að kanna möguleika á auknu samstarfi á sviði íþróttamála. Í ályktuninni kom fram að mikilvægt væri fyrir æsku vestnorrænna landa að kynnast á vettvangi íþrótta og menningar. Það væri hinn kjörni vettvangur fyrir ungt fólk að kynnast og hittast með uppbyggilegum hætti. Þetta væri hægt að gera t.d. með því að halda vestnorræn íþróttamót fyrir börn og unglinga í samstarfi við íþróttayfirvöld eða íþróttasamtök viðkomandi landa.

Í annarri ályktun var kallað eftir stofnun samstarfsvettvangs um framtíð vestnorrænna tungumála í stafrænum heimi. Í ályktuninni var bent á ógnina sem steðjar að smærri tungumálum í kjölfar hinnar stafrænu byltingar. Mikilvægt væri að leggja rækt við þróun máltæknibúnaðar til að styrkja stöðu tungumálanna. Á Íslandi er hafin fagleg og vönduð vinna í þá átt. Hugur fulltrúa í Vestnorrænu nefndinni stendur til samstarfs við þá góðu aðila. Ályktanirnar verða lagðar fram sem tillögur til þingsályktunar á Alþingi á vorþingi sem nú stendur yfir.

Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins, sem samanstendur af formönnum landsdeilda Íslands, Grænlands og Færeyja, átti sinn árlega fund með sendinefnd Evrópuþingsins í Reykjavík í febrúar. Evrópuþingmennirnir lýstu áhuga sínum á að fræðast um íslensk lög um jafnlaunavottun, sem gengu í gildi í janúar 2018. Einnig var á fundinum rætt um innflutning á selaafurðum til Evrópusambandsins og málefni norðurslóða. Þá tók forsætisnefnd þátt í 70. þingi Norðurlandaráðs í Ósló í lok október þar sem hún fundaði með ráðherrum Vestur-Norðurlanda og forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Til umræðu á þeim fundi voru m.a. aðgerðir til að stemma stigu við plastmengun í hafi, málefni norðurslóða og vernd tungumála á tímum stafrænnar byltingar.

Virðulegur forseti. Framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, Inga Dóra Markussen, lét af störfum í upphafi ársins og í janúar gekk forsætisnefnd frá ráðningu Sigurðar Ólafssonar í stöðuna. Í kjölfar þess að Vestnorræna ráðið fékk áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu árið 2017 hafa aðildargjöld þjóðþinganna til ráðsins hækkað og samkvæmt ályktunum Vestnorræna ráðsins skyldu aukin fjárráð nýtt til að ráða annan starfsmann á skrifstofu ráðsins í hálfa stöðu. Auglýst var eftir starfsmanni í hálfa stöðu í desember 2018 og mun ráðning fara fram á næstu vikum. Þetta er til marks um auknar áherslur Vestnorræna ráðsins í málefnum norðurslóða.

Íslandsdeild lagði fram fimm tillögur til þingsályktunar á vormánuðum 2018 upp úr ályktunum Vestnorræna ráðsins frá ársfundi ráðsins frá árunum 2016 og 2017. Ályktanirnar fimm voru samþykktar á Alþingi í apríl.

Virðulegur forseti. Ég hef farið nokkrum orðum um starfsemi Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins á árinu 2018, sem var blómlegt og lærdómsríkt á margan hátt. Þegar ég settist í Vestnorræna ráðið lá svo sem ekki fyrir mikil þekking á starfseminni en mér er orðið ljóst hversu mikilvægur vettvangur það er fyrir öll vestnorrænu löndin. Að okkur steðja ýmsar ógnir. Við þekkjum öll umræðuna um loftslagsmálin, það eru umhverfismálin, það eru auðvitað tungumálin í þeim löndum, það eru öryggis- og umferðarmál um hafið og það eru hagsmunamál sem tengja okkur saman, atvinnumál og fleiri þættir. Það er margt sem hnýtir löndin saman. Ísland er í þeirri stöðu að vera stóri bróðir í samstarfinu og því verkefni gegnum við vitandi hversu vandasamt það er.

Við upplifðum að þetta samstarf er gríðarlega mikilvægt bæði Grænlendingum og Færeyingum. Í þjóðréttarlegri stöðu sinni er það þeim mikilvægt því að þetta er sá vettvangur sem löndin hafa og að mörgu leyti gluggi út í heiminn án þess að hafa konungsveldið sem andar ofan í hálsmálið á þeim.

Mér er ljóst að ærin verkefni eru fram undan. Á nýliðnum fundi Vestnorræna ráðsins, sem stendur raunar yfir á Íslandi þessa dagana, fóru fundarmenn í dálitla skoðun á hlutverki og framtíð Vestnorræna ráðsins og verður fróðlegt að vita hvað kemur út úr því. Menn voru sammála um að mikilvægi Vestnorræna ráðsins færi vaxandi. Ein spurningin sem við veltum fyrir okkur var: Myndum við, ef við værum að velta fyrir okkur að stofna Vestnorrænt ráð, stofna það í dag? Það velktist enginn í vafa um að það myndum við gera og jafnvel hafa það enn öflugra og burðarmeira í öllum störfum sínum en það er í dag.

Að lokum vil ég þakka starfsfólki Alþingis fyrir öll þau störf og þá aðstoð sem Vestnorræna ráðið fær að njóta hér. Það er mikils virði að hafa hæft fólk sem þekkir vel til staðhátta á þessu landsvæði. Við vonumst til þess að Vestnorræna ráðið fái að eflast um ókomna framtíð.