149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

vestnorræna ráðið 2018.

529. mál
[11:55]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða fyrirspurn. Þessi málefni voru rædd. Það er svo áhugavert varðandi þessi lönd að þótt við séum öll fámenn eru aðstæður mjög mismunandi í löndunum. Öll löndin horfa með mikilli aðdáun á árangur Íslendinga í ferðaþjónustu og skilja hann ekki, skilja ekki hvernig við getum klárað okkur af þessu.

Grænlendingar hafa áhuga á því að auka ferðaþjónustuna. Uppbygging flugvallanna er auðvitað liður í því. Færeyingar sömuleiðis. En þeir horfa mjög mismunandi augum á þetta. Grænlendingar eru miklu uppteknari af því að verja landið sitt og stjórna áganginum, en innviðirnir eru ekki mjög sterkir. Þeir kvarta sjálfir undan því að þangað komi persónur og leikendur yfir kannski háannatímann, veiti einhverja þjónustu og séu svo farnir. Það verði ekki til nauðsynleg þekking í landinu og stöðugleiki sem þarf að verða.

Færeyingar horfa á þetta miklu líkar okkur en þó í minni skala. Auðvitað verða þeir varir við áhuga stórveldanna núna í sambandi við byggingu flugvallanna. Þeir verða varir við áhuga Bandaríkjamanna sem vilja hafa einhver ítök þarna. Ég held að það sé nú komið á eitthvert samkomulag varðandi þessa flugvallargerð.

En það er merkilegt að upplifa þennan rótgróna vilja og ást Grænlendinga á landinu sínu. Þeir vilja ekki fórna landinu sínu undir ferðamennsku. Þeir vilja hafa fulla stjórn.