149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

vestnorræna ráðið 2018.

529. mál
[11:58]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það var mjög áhugaverð þróun á Grænlandi í september sl., þegar hlutir gerðust býsna hratt sem tengjast flugvöllunum og uppbyggingu þeirra. Menn hugsa þetta út frá öryggissjónarmiðum og því almennt að ferðast um Grænland sem er geysidýrt, að byggja væntanlega upp vellina í Nuuk og Ilulissat og Narsarsuaq. Mér finnst persónulega þetta mjög spennandi. Þetta eykur öryggi á Atlantshafinu og fyrir alþjóðaumferð og í stóra samhengi hlutanna.

Þarna varð ákveðin framvinda, eins og hv. þm. Guðjón Brjánsson minntist á, þetta samspil sem varð, hversu hröð þróunin var í september varðandi flugvallargerðina, það sem sneri að Kínverjum, Bandaríkjamönnum og dönsku stjórninni. Miklar sviptingar.

Ég hef töluvert miklar áhyggjur af öryggismálum norður í höfum og vil að við gerum mun betur og vonandi heldur Vestnorræna ráðið áfram að vinna og skoða þau mál. Ég veit að menn eru að skoða öryggismálin víða, í Norðurskautsráðinu og víðar. En svo hef ég persónulega mjög mikinn áhuga á gervihnattaleiðsögu og bættum fjarskiptum með gervihnöttum og slíkri tækni. Það myndi gera geysilega mikið einmitt á Grænlandi og Íslandi ef við fylgdum í spor Færeyinga og reyndum að ná þeim árangri sem Færeyingar hafa náð í gegnum gervihnattarleiðsögu á sínum flugvelli í Vogum og hefur gjörbreytt öllu umhverfi þar. Það yrði gríðarlegt framfaraspor fyrir Grænlendinga og Íslendinga að ná svipaðri tækni yfir Ísland í gegnum EGNOS og ESA.

Ég vona að það verði áframhaldandi vinna í Vestnorræna ráðinu við að ýta áfram þessum hlutum og kannski opna þau málefni svolítið í ráðinu sem snúa að gervihnattaleiðsögu á öllu svæðinu.