149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

vestnorræna ráðið 2018.

529. mál
[12:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þó að það sé fremur óhefðbundið, miðað við núverandi stöðu mína hér á Alþingi, ætla ég að láta eftir mér að segja nokkur orð þegar við ræðum norrænt samstarf eins og við gerðum áðan og nú vestnorrænt. Þar tala ég fyrst og fremst sem þingmaður sem hef sinnt þess konar samstarfi mjög lengi, satt best að segja nánast samfellt. Í tæplega 36 ára störfum mínum hér á þingi hef ég annaðhvort setið í Vestnorræna ráðinu eða Norðurlandaráði eða sinnt störfum í norræna ráðherraráðinu.

Svo vill til, af því að hér var nefndur lauslega í framsöguræðu aðdragandinn að tilurð Vestnorræna ráðsins, eða stofnfundur þess í Nuuk í Grænlandi 24. september 1985, að ég sat þann fund og er nú væntanlega einn eftir, alla vega starfandi í stjórnmálum, sem það gerðu. Ég sat reyndar í undirbúningsnefnd Íslendinga, Grænlendinga og Færeyinga sem á árunum 1983–1985 lagði grunninn að samningunum um Vestnorræna ráðið. Það var góður skóli og merkileg upplifun að kynnast þar stórbrotnum stjórnmálamönnum eins og Jónatan Motzfeldt og Erlendi Paturssyni frá Kirkjubæ en leiðtogi okkar Íslendinga í því tilviki var Páll Pétursson. Reyndar má segja að Erlendur Patursson, sá stórmerki stjórnmálamaður, hafi verið aðalfrumkvöðullinn að því að Vestnorræna ráðið varð til, en hann flutti um slíkt samstarf tillögur í Norðurlandaráði og barðist ötullega fyrir því að samstarfið kæmist á fót. Fyrir honum vakti að sjálfsögðu, fyrir utan gott samstarf þessara grannríkja, að með þessu væru Færeyingar að stíga skref í átt til aukins sjálfstæðis og gerast fullgildir þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi. Það er m.a. það merkilega við Vestnorræna ráðið að þar sitja Færeyingar og Grænlendingar á jafnréttisgrundvelli til borðs með fullvalda og sjálfstæðu ríki.

Vestnorræna ráðið, eða þetta samstarf þjóðþinganna, þjónar í mínum huga margþættum tilgangi. Ályktanir þess og störf hafa mikið gildi, en það skyldi enginn horfa fram hjá þeirri staðreynd að í gegnum þrisvar sinnum sex þingmenn, sem endurspegla flesta eða jafnvel alla flokka sem þingmenn eiga kjörna í viðkomandi þjóðþingum, eru á hverjum tíma 10% íslenskra þingmanna og um 20% færeyskra og grænlenskra þingmanna virkir þátttakendur í vestnorrænu samstarfi. Þeir hafa þar með tekið að sér ábyrgðina á og þá skylduna til að byggja upp og efla þetta samstarf. Þeir mynda sterkt tengslanet og hlutfallslega fjölmennt, borið saman við fjölda þingmanna í viðkomandi þjóðþingum, sem hefur þessar skyldur á herðum. Það hefur mikið gildi fyrir vestnorrænt samstarf í sjálfu sér og skyldi enginn vanmeta það, bæði gagnvart því að koma góðum málum áleiðis og vinna þeim brautargengi en líka vera til staðar ef vandamál koma upp í samstarfi ríkjanna, því að það getur gerst. Þó að við lítum almennt svo á að fyrir því séu fullar innstæður að þetta samstarf gangi vel og sé gott gerist það auðvitað inn á milli að einnig þessar nágranna- og vinaþjóðir þurfa að leysa úr málum sín í milli. Þannig hefur það lengi verið. Þá getur skipt miklu að eiga tengslanet stjórnmálamanna sem þekkjast vel og geta haft samband sín í milli, bæði yfir landamærin en líka innan stjórnmálanna í viðkomandi löndum. Þannig hefur Vestnorræna ráðið og landsdeildir þess á köflum beitt sér.

Þannig var til að mynda ástandið að á milli Íslands og Grænlands hafði lítið gengið að ná samningum um mörg mikilvæg hagsmunamál og sérstaklega á sviði sjávarútvegs. Það var ósamið um deilistofna milli Íslands og Grænlands um árabil, grálúðu, karfa, rækju og fleiri mikilvægar tegundir. Þá beittu þingmenn í löndunum báðum sér fyrir því að leysa þyrfti úr þessu.

Á tíunda áratugnum kom upp umræða á Íslandi um að ástæðulaust væri að láta Færeyinga lengur hafa bolfiskskvóta á Íslandsmiðum. Þá beitti Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins sér gegn hugmyndum af því tagi með þeim rökum að það yrði skaðlegt fyrir langtímasambúð ríkjanna og samstarf og það væri heimskuleg ráðstöfun að ýta Færeyingum einhliða út úr íslensku lögsögunni, hvar þeir höfðu fengið að vera einir þjóða eftir að við færðum landhelgina út. Það varð sem betur fer niðurstaðan að Færeyingar héldu sínum kvóta, fengu reyndar loðnukvóta í viðbót þegar erfiðast var hjá þeim í kreppunni upp úr 1990. Og viti menn, fáum árum síðar fór það að skipta Ísland heilmiklu máli að hafa opinn aðgang að færeysku lögsögunni þegar við hófum aftur veiðar á norsk-íslenskri síld og reyndar fleiri tegundum.

Því er ég að rekja þetta lítillega, herra forseti, að nú eru uppi svipaðar aðstæður. Nú er því miður þannig statt í samskiptum Íslands og Færeyja að búið er að segja Hoyvíkursamningnum, fríverslunarsamningnum, upp og enginn fiskveiðisamningur er í gildi milli landanna. Þetta er að mínu mati óásættanlegt ástand. Ég vil nota þennan ræðustól til þess að skora á ríkisstjórnir landanna og þjóðþing landanna, og sérstaklega þingmenn í Vestnorræna ráðinu, bæði þá færeysku og íslensku, að beita sér í þessu máli, að setja þrýsting á stjórnvöld um að setjast í alvöru niður og leysa úr þessu.

Varðandi Hoyvíkursamninginn hefur svo sem verið vitað að um hann hefur verið viss núningur og Færeyingar ekki allir mjög sáttir við ákveðin ákvæði hans. Nú hefur það komið upp að ákvæði Hoyvíkursamningsins, um fríverslun og fjárfestingarfrelsi, rekast á við nýja löggjöf um fiskveiðimál í Færeyjum, sem setja takmarkanir á fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi. Varðandi það vil ég segja efnislega að Íslendingar ættu að fara varlega í að andmæla því í sjálfu sér að Færeyingar setji slík ákvæði í sína fiskveiðilöggjöf, því að það höfum við um áratugi gert, að takmarka eða banna alveg fjárfestingar erlendra aðila í fiskveiðum. En það þarf hins vegar að leysa úr þessu máli með skynsamlegum ráðstöfunum og eftir atvikum þá með endurskoðun þeirra ákvæða Hoyvíkursamningsins sem eru núna í mótsögn við færeyska löggjöf. Það er að mínu mati auðvelt verk að finna á því lausn. Að öðru leyti hefur samningurinn þjónað báðum löndum vel, viðskipti milli þeirra hafa stóraukist í tíð samningsins. Hin síðari ár hefur einmitt sú ánægjulega þróun orðið, sérstaklega tvö, þrjú síðustu árin, að Færeyingar koma út í plús þegar gerð eru upp heildarviðskipti landanna, þ.e. bæði vöru-, þjónustu- og fjármagnsviðskipti.

Ég endurtek áskorun mína og brýningu í þessum efnum, að að þessu verði unnið. Sama gildir að sjálfsögðu um fiskveiðisamninginn, það er úrlausnarefni að koma honum aftur á og það þarf að gerast í síðasta lagi fyrir vorið áður en Færeyingar, samkvæmt venju, færu að koma hér á Íslandsmið á sínum línubátum til að veiða sinn hlut.

Ég vil að síðustu þakka almennt fyrir störf Vestnorræna ráðsins. Ég átti þess kost að sitja hluta af þemaráðstefnunni í gær í Norræna húsinu og það var ánægjulegt. Þar voru m.a. ræddar mjög áhugaverðar hugmyndir, sem ég vil aðeins lyfta, í þá veru að Vestnorræna ráðið geri sig meira gildandi og móti sér jafnvel sameiginlegar vestnorrænar áherslur í málefnum heimskautasvæða og eftir atvikum í glímunni við loftslagsbreytingar og annað því um líkt. Það finnst mér vera mjög spennandi, stór og góð hugmynd, og rímar vel við nýfengna áheyrnaraðild Vestnorræna ráðsins að heimskautaráðinu þannig að ég hvet menn sömuleiðis til dáða í þeim efnum. Ég held að það væri mjög spennandi og skynsamlegt að styrkja hina vestnorrænu vídd í þessu samhengi gegnum sameiginlegar áherslur að einhverju leyti, sem menn mótuðu sér á þessum vettvangi. Loftslagsmálin og heimskautamálin beina mjög sjónum að einu landanna, þ.e. Grænlandi, að þróun Grænlandsjökuls. Öll þau áhrif sem þar eru kannski stærst og sýnilegust af hlýnuninni ber oft niður í Grænlandi og svo næst á eftir Antarktíku. Það er því spennandi að vera með í því og tengja Ísland við það, og eftir atvikum líka Færeyjar, og það gæti m.a. gerst í gegnum sameiginlega stefnumótun af þessu tagi.