149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

vestnorræna ráðið 2018.

529. mál
[12:12]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni og okkar virðulega forseta fyrir litla sögustund og upplýsingar. Það er merkilegt að hv. þingmaður hefur fylgst með starfi Vestnorræna ráðsins frá upphafi og er einn af skilgetnum feðrum ráðsins, skulum við segja, þeir eru fleiri en einn í þessu tilviki. Og það eru sömu málefni sem uppi eru enn þá í þessu samstarfi og það þarf að skerpa á mörgum þeirra.

Nefnd voru loftslagsmálin. Það er nú bara þannig og það kom fram einmitt á þemaráðstefnunni í gær að Grænlendingar eru þegar farnir að finna hastarlega fyrir þeim breytingum sem eiga sér stað í umhverfinu. Fiskimenn og veiðimenn á norðurströndinni geta ekki sinnt störfum sínum eins og þeir gerðu áður, þeir geta ekki sótt sjóinn og veitt með sama hætti og þeir gerðu fyrr vegna loftslagsáhrifa.

Mig langar aðeins að beina því til virðulegs forseta, spyrja hann af því að hann hefur fylgst með Vestnorræna ráðinu frá upphafi, hvort Vestnorræna ráðið hafi þróast í þá átt sem hann hafði talið og hvort Vestnorræna ráðið standi í hans huga undir þeim væntingum sem menn höfðu til ráðsins og hvar við þyrftum að beita okkur betur. Ég vil nefna þó að við munum taka brýningu hans alvarlega varðandi yfirstandandi núning (Forseti hringir.) og munum senda frá okkur ályktun.