149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

norðurskautsmál 2018.

526. mál
[12:48]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka formanni Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál fyrir góða skýrslu fyrir árið 2018. Ég hef persónulega mikinn áhuga á öryggismálum og fjarskiptum sem tengjast norðurslóðum. Við sjáum í allri umræðu hér, hvort sem er með Vestnorræna ráðinu, í skýrslu um það eða þeirri skýrslu sem ég flyt á eftir, hversu veigamikill þáttur norðurslóðir eru að verða almennt í landfræðilegum, pólitískum málefnum. Þau eru alls staðar rædd af miklum þunga, ekki síst í því starfi sem ég tek þátt í í tengslum við NATO-þingið.

Ég hef mikinn áhuga á ferðaþjónustu á norðurslóðum og öryggismálum og hef komið með fyrirspurn áður til Vestnorræna ráðsins sem snýr að skemmtiferðaskipum, ferðaþjónustu og slíkum þáttum, hvort þau málefni hafi verið tekin upp.

Við erum að tala um að það eru 3–4 milljónir íbúa á svæðinu norðan við heimskautsbaug. Þetta er gríðarlega erfitt svæði, þar eru að mörgu leyti erfiðustu lífsskilyrði á jörðinni og þess vegna er margt mjög áhugavert. Það eru miklir erfiðleikar að fást við, mörg verkefni, samanber öryggismál og fjarskipti. Ég vil tala meira um gevihnattaleiðsögu. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort sú umræða hafi verið eitthvað inni í málefnum þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál, vegna þess að drægni gervihnatta nær ekki þetta norðarlega. Við sjáum að ákveðinn árangur hefur náðst í Noregi og Finnlandi en almennt er þetta ekki á hinum norðlægu slóðum, t.d. í Norður-Atlantshafi, á Íslandi og norður af Grænlandi. Við getum ekki nýtt bandarísku kerfin. Ég held það myndi bæta öryggið gríðarlega á þeim landsvæðum ef menn fengju þetta.