149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

norðurskautsmál 2018.

526. mál
[12:50]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka spurninguna. Samvinnan er mjög góð á milli allra ríkjanna á þingmannaráðstefnunni. Það er þó vissulega þannig að ákveðin atriði eru ekki rædd og ég skal koma að því á eftir.

Hvað varðar öryggismálin má skilja þau á tvo vegu en nú er ég að tala um öryggismál almennings og skipaumferðar o.s.frv. Það er bindandi samkomulag til um samstarf allra þessara ríkja að björgun og eftirliti á Norður-Íshafi. Unnið er að því að þróa hvers konar samstarf er um að ræða og koma á það einhverju skipulagi. Rætt hefur verið t.d. um björgunarmiðstöð á Íslandi. Því hefur verið veifað þótt engar ákvarðanir hafi verið teknar. Rússar hafa til að mynda komið upp búnaði og öðru slíku við Síberíustrendur sem tengist aðallega herstöðvum þeirra. Minna er um það á svæði Bandaríkjamanna og Kanadamanna. Þau mál eru svona, búið er að taka fyrstu skref en ekki meira.

Varðandi það sem ekki er rætt er hernaðaruppbyggingin sjálf, uppbygging Rússa á landsvæði þeirra, svör NATO og vesturveldanna með ýmsu móti, ég ætla ekki að rekja það heldur, við þekkjum það úr fréttum. Kínverjar eru að byggja upp sitt belti og braut og koma inn með ísbrjóta o.s.frv. Þar er auðvitað engin hernaðaruppbygging r en samt sem áður skynjar maður ákveðinn áhuga á svæðinu sem maður veit ekki hvert leitar og ástæða til að vera mjög vakandi yfir því. Allt tengist þetta svo stjórnun þessa hafsvæðis. Hver á að stjórna Norður-Íshafinu utan við (Forseti hringir.) 200 mílna lögsöguna?