149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

norðurskautsmál 2018.

526. mál
[12:52]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þær kallast greinilega svolítið, á skýrslurnar hjá okkur í dag. Ég ætla að fara yfir það sem kemur fram í skýrslunni frá NATO-þinginu um vaxandi mikilvægi málefna norðurslóða, m.a. út frá loftslags-, efnahags- og öryggismálum. Hafísinn á svæðinu hefur hopað hratt sökum loftslagsbreytinga á undanförnum árum og slík þróun hefði ómæld áhrif á hefðbundið líf á svæðinu. Þá eru ný tækifæri að skapast varðandi opnun nýrra siglingaleiða í ferðaþjónustu og með auknu aðgengi að auðlindum. Jafnframt eru vaxandi áhyggjur af aukinni spennu milli norðurskautsríkjanna með auknu viðskiptalegu mikilvægi og landfræðilega pólitískum breytingum, ekki síst í ljósi aukinnar hernaðaruppbyggingar Rússa á svæðinu, sem hv. þingmaður minntist á. Það er einmitt hernaðarlegt mikilvægi við Síberíustrendur.

Nú hafa Rússar sett í gang og endurbyggt átta herstöðvar við norðausturleiðina, eins og við köllum hana, frá Evrópu til Asíu, sem hafa mjög mikilvægu hlutverki að gegna sem björgunar- og öryggismiðstöðvar fyrir svæðin.

Þetta er fín umræða í dag og menn koma víða við.

Mig langar að spyrja út í umræðu á vettvangi Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál sem snýr að jafnréttismálum, hvernig þau hafa verið tekin fyrir. Við Íslendingar höfum lagt mikla áherslu á jafnréttismál í alþjóðastörfum okkar og nefndum og öðru á erlendum vettvangi og líka á NATO-þinginu. Ég hef áhuga á að vita hvernig menn taka á þeim málum í þessu starfi.