149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

norðurskautsmál 2018.

526. mál
[12:57]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýrsluna. Það er mjög áhugavert starf sem er unnið í þessari þingnefnd og kannski ekki síst mikilvægt að hafa tækifæri til að vinna með þessum stóru þjóðum, sem eru miklir leikendur í alþjóðastjórnmálunum. Það er eitt að við séum í Norðurslóðaráðinu þar sem ráðherrar sitja og svo embættismenn sem fylgja eftir því starfi þar, en þarna er vettvangur þingmanna.

Mig langar að spyrja hv. þm. Ara Trausta Guðmundsson aðeins út í virknina hjá þingmönnunum. Ég hef talað fyrir því að það sé mjög mikilvægt að við Íslendingar notum rödd okkar á vettvangi norðurslóðamála, sem við svo sannarlega erum að gera þar sem við tökum við formennsku í Norðurskautsráðinu. En ég tel að við eigum mikla möguleika í því að vera norðurslóðaþjóð, eigum mikla möguleika í vísindum, rannsóknum og nýsköpun er tengjast þessum málaflokki. Ég myndi gjarnan vilja sjá öflugra samstarf ríkja um vísindi og rannsóknir. Evrópusambandið sýnir þessum málum aukinn áhuga og hefur mótað sér stefnu í norðurslóðamálum. Þó að Evrópusambandið sem slíkt sé ekki aðili að Norðurskautsráðinu er það áheyrnaraðili og á fulltrúa í þingmannasamstarfinu.

Nú er ég líka aðeins að kalla eftir því hjá hv. þingmanni hvernig honum finnst vesturveldið stóra, Bandaríkin, hafa staðið sig í því að koma á framfæri eða vera með skýra stefnu og framtíðarsýn er kemur að samstarfi þessara ríkja um norðurslóðamál.