149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

norðurskautsmál 2018.

526. mál
[12:59]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa tölu og spurningar. Virkni hjá þingmönnum, ef við tökum bara okkur hér, mætti auðvitað vera meiri. Eitt af því er að fræða almenning meira um hvað við gerum í norðurslóðamálum, ekki bara þingmenn heldur Íslendinga almennt og um ástandið o.s.frv., vera sýnileg út á við, bæði Vestnorræna ráðið, Norðurlandaráð og við í þingmannaráðstefnunni.

Við erum nú þegar í dálítið góðri stöðu með sumt af því sem hv. þingmaður nefndi, eins og varðandi nýsköpun. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur t.d. lagt fram plagg um það hvaða nýsköpunartækifærum hún hefur verið að vinna að sem gagnast á norðurslóðum.

Varðandi vísindi og rannsóknir er slíkt að mörgu leyti mikið í gangi hjá Norðurskautsráðinu. Það eru starfsnefndir á flestum sviðum vísinda, hvort sem eru náttúrufræðilegar rannsóknir eða félagsfræðilegar, og sífellt fleiri þjóðir koma að því. Það eru kínverskir vísindamenn, pólskir vísindamenn, meira að segja Singapúr hefur mikinn áhuga á norðurslóðarannsóknum, Japanir o.s.frv. Akkillesarhællinn er frekar samstarfið sjálft, þ.e. miðlun gagnkvæmt á þekkingu, miðlun gagnkvæmt á gögnum, svo að það ætti kannski að stofna alþjóðamiðstöð vísinda á heimskautasvæðinu til þess að auðvelda samskiptin, að auðvelda samvinnuna.

Bandaríkin eru ekki vel stödd í þessu og ég ætla að nota tímann í mínu síðara andsvari til að gera aðeins grein fyrir stöðunni þar. Það er því miður þannig að þeirra stefnumótun er veik og starfið er veikt.