149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

norðurskautsmál 2018.

526. mál
[13:01]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég hjó eftir því að við þurfum kannski alþjóðamiðstöð vísinda, (ATG: Norðurskautsvísinda.) já, norðurskautsvísinda. Mér fannst þetta hljóma virkilega vel og velti fyrir mér hvort það væri ekki mikið tækifæri fyrir okkur Íslendinga. Ég tek undir það, ég held að það sé vilji hjá öllum vísindamönnum að starfa saman, hvort sem þeir koma frá Rússlandi, Bandaríkjunum, Kanada, Evrópusambandinu eða hvaðan það er. En stundum virðast alþjóðastjórnmál og pólitík þvælast svolítið fyrir. Það er kannski oft þá sem smærri ríki eins og Ísland geta spilað töluvert hlutverk.

Ég segi þetta kannski ekki síst vegna þess að ég hef fengið tækifæri til að sitja fundi SCPAR og heyra þar Rússana tala fyrir auknu samstarfi og vilja svo gjarnan deila með öðrum þjóðum aðgangi að rannsóknum og vísindum. Ég er að vona að með aukinni áherslu og sterkri rödd okkar og fleiri um mikilvægi rannsókna á norðurslóðum opnist líka meira af samkeppnissjóðum Evrópusambandsins, nákvæmlega tengt þessu máli. Evrópusambandið vill gjarnan líka opna fyrir það að aðrar þjóðir geti haft aðgang að þessum rannsóknarsjóðum. Það er eitt af þeirra helstu stefnumálum núna við næstu rammaáætlun. Þannig að spurning mín lýtur að því: Getur þingmannaráðstefnan — mér finnst þetta, virðulegur forseti, fyrirgefðu, svolítið ankannalegt nafn, það er talað um þingmannaráðstefnu, en þetta er þingmannasamstarf Norðurskautsráðsins og þar hafa ákveðnir aðilar áheyrnaraðild — það sem ég er að velta fyrir mér: Deilir þingmaðurinn þeirri sýn minni að þessi mikilvæga þingmannanefnd geti ýtt (Forseti hringir.) enn frekar undir aukið samstarf á sviði vísinda og rannsókna um norðurskautsmál? Og getur Ísland þar kannski spilað stórt hlutverk?