149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

norðurskautsmál 2018.

526. mál
[13:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef tekið þátt í alþjóðastarfi hér á þingi, að fara á þessa þingmannaráðstefnu í Inari um norðurskautsmál. Það var mjög áhugaverð upplifun enda mjög áhugavert starf sem fer þarna fram. Þingmenn koma þangað frá öllum löndum við norðurheimskautsbaug og víðar að. Þarna voru t.d. þingmenn frá Bretlandi og ráðherra frá Singapúr, sem tók mikinn þátt í umræðum á ráðstefnunni. Það var líka mjög áhugavert að hitta þingmenn frumbyggjaþinga, Samaþingsins, þingsins í Kanada og í Rússlandi, og heyra sjónarmið þeirra. Það eru ekki bara landsþingin sem senda fulltrúa heldur eru áheyrnarfulltrúar frá frumbyggjaþingunum. Ef eitthvað er mættu þau þing koma meira að málum í framhaldinu, ef hægt væri að gera eitthvað í þá veru. Þau sjónarmið sem fulltrúar þeirra þinga komu með inn í umræðuna voru einstaklega góð og að sjálfsögðu töluðu þau af miklu innsæi þar sem þau hafa mjög góða þekkingu á staðháttum. Það er það sem ég lærði einna mest af þarna, að ná tengslum við aðra þingmenn, aðra kjörna fulltrúa, og þá sérstaklega fulltrúa innfæddra eða frumbyggja.

Aaja Chemnitz Larsen hélt erindi um vandamál smærri tungumála á norðurslóðum, en smærri tungumál eru í þó nokkurri hættu eins og við upplifum dálítið með íslenskuna. En aðbúnaður þeirra og aðgengi að þeim tólum og tækjum sem þarf til að varðveita tungumálin og verja þau til frambúðar, eins og við gerum með átaki í íslenskri máltækni á Íslandi, er ekki eins gott og okkar og annarra stærri þjóða. Ég hef lagt fram frumvarp um breytingar á höfundalögum, um sjálfvirka greiningu texta, þannig að hægt sé að skanna alla tungumálatexta endurgjaldslaust — það er pínulítið flókið, ég fer ekki of djúpt í það — til þess að tölvan geti lært tungumál. Ég velti fyrir mér hvort stærri þjóðir geti ekki deilt þeirri tækni sem þær hafa aðgang að með smærri þjóðum sem síður hafa aðgang að slíku. Þegar Aaja var að tala um þetta vandamál hripaði ég niður á blað á örskotsstundu, af því að ég þekki þennan málaflokk, og sendi nefndarmönnum í Íslandsdeildinni. Við löguðum aðeins orðalagið og lögðum fram tillögu um það hvernig styðja mætti við þróun stafrænnar tækni fyrir tungumál á norðurslóðum, og sérstaklega þessi litlu tungumál, með því að veita aðgang að rannsóknum, tækni og menntun um tölvuvæðingu tungumála. Ég veit ekki hversu algengt það er að koma svona seint inn í ferlið með nýjar tillögur sem eru samþykktar. Ræða þingmannsins Aaju Larsen var mjög góð og hafði tvímælalaust þau áhrif á fólk að það var mjög auðsótt að fá tillöguna samþykkta þegar hún lá fyrir nefndinni.

Þarna púslaðist saman ákveðin þróun á Íslandi í máltækni og verndun íslenskunnar, sambærileg vandamál meðal smærri þjóða á norðurskautinu og þær framfarir og þau skref sem við höfum náð að stíga. Við gátum blandað saman þeirri þekkingu sem við höfðum, af því að við erum líka með tungumál í ákveðinni hættu, og stigið inn hjá þeim sem hafa ekki náð það langt á þeim tíma, á meðan stærri þjóðirnar hafa ekki haft sérstaka þörf á því að standa í þessu. Þær eru kannski komnar miklu lengra með þetta og búast við því að allt gangi sinn gang hjá öðrum. En smærri þjóðirnar sjá vandamálin betur og skilja af hverju vandinn er til staðar hjá smærri þjóðum en ekki stærri. Stóru þjóðirnar gera þetta bara og allir aðrir geta séð um sig sjálfir. Við búum ekki við þann lúxus. Norðurskautið sem slíkt býr ekki við þann lúxus, eins og sést t.d. með aðkomu Singapúrs að þessari ráðstefnu. Þar hafa menn áhuga á norðurskautsmálunum af því að það hefur líka áhrif á þá, þótt þeir séu ekki nálægt norðurskautinu.

Það var mjög gaman að tala við þann sem kom frá Singapúr, hann hafði mikinn áhuga og mikla þekkingu á þessum málum og fleiri mættu taka sér það til fyrirmyndar. Aðgerðaáætlun Singapúrs í loftslagsmálum er ein sú besta sem ég veit um. Þeir hafa tekið alþjóðaskýrslur um loftslagsbreytingar, breytingar á sjávarstöðu, og skipulagt sig: Þetta er að fara að gerast, við bregðumst við því, við gerum eitthvað í því. Og þeir eru byrjaðir. Þeir fá síðan skýrslur um að ástandið sé að verða verra og það þurfi að gera enn meira. Þeir eru að sjálfsögðu að þrýsta enn meira á alla, sérstaklega hér á norðurskautinu, en hér segir að hlýnunin á norðurskautinu sé að gerast miklu hraðar en annars staðar. Það veldur mun meiri óafturkræfum breytingum þótt þær hafi kannski áhrif seinna hjá þeim. Ef þróunin klárast hér á norðurskautinu, ef hafísinn bráðnar, er það mjög hæg dómsdagsklukka fyrir Singapúr.

Þetta var mjög lærdómsrík ferð. Ég skil nú miklu betur hversu mikilvægar svona ráðstefnur eru þar sem þingmenn annarra þjóða hittast og tala saman um þessi málefni sem eru svipuð, aðeins blæbrigðamunur. Eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir benti á áðan í umræðum um Vestnorræna ráðið er þetta ekki eins og á ráðherrastiginu þar sem embættismenn eru að tala meira saman. Þarna er verið að leggja grundvöllinn að stefnunni sem ráðherra mun taka í framhaldinu og framkvæma. Þarna er verið að stíga fyrstu skrefin, móta sýnina á það hvert eigi að fara.

Að sjálfsögðu, miðað við þennan umræðugrundvöll í Norðurskautsráðinu, eru loftslagsbreytingar langefst á baugi. Áætlanirnar sem eru settar þarna fram eru mjög metnaðarfullar, meira að segja fram yfir þær sem gert er ráð fyrir í Kyoto á næstu árum. Ég vonast eftir því að allar þjóðir Norðurskautsráðsins og fleiri framfylgi af alvöru þeim niðurstöðum sem settar hafa verið fram af fulltrúum á þessari þingmannaráðstefnu því að annars eigum við eftir að lenda í slæmum málum. Það er ekkert flóknara en það. Þessi skref hafa verið stigin á þessum vettvangi. Nú er það ráðherranefndanna og fleiri að sjá til þess að hlutirnir komist í framkvæmd.

Á þeim nótum langar mig að spyrja þingheim: Það væri gaman að vita hver staða þeirra ályktana sem þessar þingmannanefndir hafa skilað af sér, og ekki bara um norðurskautsmál, er hjá framkvæmdarvaldinu. Hversu langt hafa þær náð? Í hvaða box er búið að haka? Er búið að klára það sem var sett fram hér eða þar? Hversu langt á veg er það komið? Ég held að það væri mjög gagnlegt fyrir þingið að fá skýrslu um framvindu þeirra verkefna sem þessar ráðstefnur hafa lagt fram um þau mál sem beri að horfa á til framtíðar.