149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

ÖSE-þingið 2018.

527. mál
[14:09]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var eiginlega að vona að hv. þingmaður væri að koma í eins konar meðsvar þegar hann sagðist vera sammála í einu og öllu því sem ég sagði. Á þessari mínútu er ekki frá því að ég sakni formanns nefndarinnar, hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, því að ég verð að viðurkenna að ég get ekki svarað þessari spurningu. Ég bara þekki þetta ekki. Ég veit ekki hvort það segir þá sögu að við tökum ekki þátt í þessari vinnu og höfum þá augljóslega ekki rætt þetta eða hvort þetta er á misskilningi byggt. Því miður get ég ekki svarað spurningu hv. þingmanns því að ég þekki það bara ekki.

Aftur á móti held ég að óhætt sé að segja að með aðgerðum okkar höfum við Íslendingar tekið undir með alþjóðasamfélaginu þegar Rússar brutu alþjóðalög og réðust inn í Úkraínu. Við höfum staðið fast með þeirri ákvörðun okkar. Við vorum til að mynda að ræða hér áðan viðskipti Færeyinga við Rússa en þeir urðu ekki fyrir viðskiptabanninu vegna þess að þeir tóku ekki þátt í — ég veit ekki einu sinni hvort þeim var boðið það — refsiaðgerðum annarra Evrópuþjóða. Við höfum alla vega staðið fast á og ítrekað í málflutningi okkar mikilvægi mannréttinda og mikilvægi þess, hversu raunhæft eða óraunhæft sem það kann að vera, að Rússar skili hreinlega aftur Krímskaga.