149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

ÖSE-þingið 2018.

527. mál
[14:10]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þetta. Ég geri mér grein fyrir því að þetta er kannski ekki auðveld spurning enda snerist hún fyrst og fremst um það hvort þetta hefði komið upp. Ég hef reynt að vekja máls á því í utanríkismálanefnd, og hef margsinnis spurt utanríkisráðuneytið, hvers vegna þetta sé svona. Í upphafi verkefnisins vorum við með einn fulltrúa þarna úti en það hefur ekki verið mjög lengi. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að við tökum undir svona lagað en það er mjög auðvelt að taka undir í orði en fylgja því ekki eftir með neinum aðgerðum. Við erum lítið og herlaust land en við erum ekki svo lítil eða svo herlaus, ef maður skoðar söguna, að við getum ekki reynt að fylgja svona málum eftir með því að veita liðsstyrk.

Þess má geta að þetta er ekki hernaðarverkefni, þarna eru einstaklingar frá löndum sem ekki eiga aðild að herjum. Þeir eru í mannúðarverkefni og eru að leysa verkefni af alls konar tagi, allt frá því að fylgjast með átökunum á víglínunni milli Úkraínu og uppreisnarhópa upp í verkefni á borð við flutning matvæla í gegnum átakasvæði, jarðsprengjuhreinsun o.fl. Þetta eru gríðarlega mikilvæg verkefni. Ísland gæti komið að málum með einhverju móti. Mér finnst það í raun skammarlegt að við séum eina landið sem hefur ekki aðila í þessu eins og staðan er í dag. Ef hægt er að koma því á framfæri myndi ég óska þess.