149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

NATO-þingið 2018.

524. mál
[14:54]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Forseti. Ég er einn af varaformönnum tækni- og vísindanefndar NATO-þingsins. Þar fær maður mikið af upplýsingum og við kynnum okkur vel ákveðin málefni sem snúa einmitt að tækni. Það eykur enn frekar áhuga minn á þessum málefnum sem eru tæknibreytingar og tækninýjungar.

Gervihnattaleiðsaga, uppsetning gervihnatta og drægni þeirra yfir norðlægar slóðir er stórt og mikið áhugamál hjá mér, notað í flugleiðsögu, sjálfkeyrandi bíla, vísindi og tækni og allt sem þessu fylgir þannig að ég er að reyna að vekja athygli á þeim hlutum sem snúa að þessu. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir okkur til framtíðar að við höfum aðgengi að gervihnöttum. Í dag eru fáar Evrópuþjóðir sem hafa jafn takmarkað aðgengi að þessum kerfum og við.

Annað sem þingmaðurinn er að vísa í varðandi fundinn í atvinnuveganefnd snýr að ómönnuðum loftförum. Ég held að það væri mjög spennandi að reyna að skapa þær aðstæður hér að við gætum rannsakað hvernig þetta geti þjónað hagsmunum okkar á norðurslóðum, í íslenskri lögsögu, yfir Grænlandi og hér norður í hafi. Í dag er verið að smíða ómannaðar flugvélar sem hafa kannski helst verið þekktar fyrir að vera í hernaði. Þær eru notaðar í margt annað, þar á meðal gætu þær nýst okkur í vísindum og rannsóknum. Þær geta verið í tvo sólarhringa á lofti og gætu nýst okkur gríðarlega vel á mörgum sviðum, þar á meðal í að fylgjast með landhelginni og ýmsu sem henni tengist og síðan bara miklu stærra svæði. Það er eitt af því sem ég vil sjá gerast hjá okkur.