149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2018.

522. mál
[14:56]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég flyt skýrslu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES fyrir árið 2018. Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, og Evrópska efnahagssvæðið, EES, gegna veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES njóta Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 30 önnur Evrópuríki með um 500 milljóna manna markað. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp öflugt net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB eða svonefnd þriðju ríki, en ég ætla að koma inn á þetta allt á eftir.

Skemmst er frá því að segja að starfsemi nefndanna var með hefðbundnum hætti á árinu 2018. Þingmannanefnd EFTA kom saman til fundar þrisvar sinnum, þar af tvisvar í tengslum við fundi nefndarinnar með ráðherrum EFTA. Enn fremur átti framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA fundi með þingnefndum, ráðuneytum og stofnunum í Buenos Aires og Montevideo um fríverslunarmál.

Þingmannanefnd EES kom að venju tvisvar saman til fundar á árinu.

Þá hélt sameiginleg þingmannanefnd Íslands og ESB einn fund á árinu.

Stuttlega um uppbyggingu þingmannanefnda EFTA og EES. Í rauninni er um tvær aðskildar nefndir að ræða, og svo er reyndar þriðja nefnd til viðbótar, sem sagt þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES. Þær eru formlega aðskildar vegna ólíks verksviðs og örlítið mismunandi nefndasamsetningar í hinum EFTA og EES-ríkjunum, t.d. er Sviss eingöngu með áheyrnaraðild að þingmannanefnd EES. Þessar nefndir eru eins skipaðar af hálfu Alþingis. Sameiginleg þingmannanefnd Íslands og ESB er svo samsett úr Íslandsdeildum þessara nefnda ásamt fimm mönnum úr utanríkismálanefnd og er hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir formaður sameiginlegu þingmannanefndarinnar. Íslandsdeildir nefndanna skipa Smári McCarthy formaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir varaformaður, og Brynjar Níelsson, Hanna Katrín Friðriksson og Jón Gunnarsson. Ritari nefndarinnar var og er Stígur Stefánsson sem hefur verið algerlega ómetanlegur í aðstoð sinn og ég þakka honum fyrir hana.

Frekar en að fara ofan í hvern fund fyrir sig — enda voru þeir margir og áhugasamir geta lesið um þá í skýrslunni — ætla ég að koma inn á vinnu nefndanna með því að fjalla um helstu málasviðin. Eitt af því sem hefur verið mjög áberandi í vinnu nefndarinnar undanfarið ár er Brexit. Við höfum átt á árinu marga fundi um fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr ESB og áhrif hennar á samskipti EFTA-ríkjanna við Bretland. Þar á meðal voru fundir í Lundúnum og Brussel ásamt aðkomu sérfræðinga á öðrum fundum. Helstu viðræðuaðilar í breska þinginu voru Brexit-nefnd neðri deildar undir forystu Hilary Benn, alþjóðaviðskiptanefnd sömu deildar undir forystu Nigels Evans, Evrópunefnd lávarðadeildar undir forystu Boswell lávarðar, og stefnumótunarnefnd íhaldsmanna um Brexit undir forystu Vicky Ford, Keirs Starmers, skuggaráðherra Verkamannaflokksins fyrir Brexit og Michels Barniers, aðalsamningamanns ESB um Brexit. Þá áttu EFTA-þingmenn fundi með Alan Duncan, aðstoðarráðherra í utanríkisráðuneyti, Greg Hands, aðstoðarráðherra í ráðuneyti alþjóðaviðskipta, Suellu Fernandes, þinglegum aðstoðarráðherra ráðuneytis útgöngumála, sem reyndar hefur sagt af sér og einnig gift sig þannig að hún hefur ekki lengur sama eftirnafn.

Meginskilaboð þingmanna EFTA á öllum fundum voru m.a. að benda á mikilvægi viðskiptasambands Bretlands og EFTA en árleg viðskipti nema meira en 50 milljörðum punda. Um 10% af vöruútflutningi EFTA-ríkjanna fer til Bretlands og EFTA-ríkin eru kaupendur að yfir 5% af þjónustuútflutningi þaðan. Þá búa um 54.000 borgarar EFTA-ríkjanna í Bretlandi og svipaður fjöldi Breta í ríkjum EFTA. Samband Bretlands og EES/EFTA-ríkjanna byggist á EES-samningnum og þátttöku í innri markaði ESB en samband Bretlands og Sviss á tvíhliða samningi þess síðarnefnda við ESB. Komi samkomulagið um bráðabirgðatímabil til framkvæmda er ljóst að slík samskipti haldast óbreytt til ársloka 2020. En nú hafa verið svo miklar hræringar í þessum Brexit-málum að nánast ógerningur er að halda í við það sem á sér stað hverju sinni. Það er því kannski erfitt að segja eitthvað nákvæmt um hvernig þetta kemur til með að líta út eftir nokkra mánuði.

Framtíðarskipan viðskipta við Bretland eftir útgöngu úr ESB og þar með úr EES-samningnum er gríðarlegt hagsmunamál fyrir ríki EFTA, enda er Bretland einn stærsti viðskiptaaðili bæði Íslands og Noregs innan EES. Það eru margir möguleikar á því hvernig þetta gæti farið, en mikilvægasta niðurstaðan er að með einhverjum hætti verði uppi einhvers konar samkomulag milli EES-ríkjanna og Bretlands eftir á, t.d. með því að EFTA-ríkin fjögur geri samning við Bretland um að EES, EFTA-ríkin þrjú án Sviss, hefðu samflot um slíkan samning eða að EFTA-ríki, hvert fyrir sig, gerði tvíhliða samning við Bretland.

Eitt af markmiðum EFTA með því að byggja upp net fríverslunarsamninga er að tryggja samkeppnishæfni fyrirtækja innan EFTA-ríkjanna gagnvart fyrirtækjum innan ESB á viðkomandi markaði. Þingmannanefnd EFTA hefur stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna og hefur beitt sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð fríverslunarsamninga við EFTA. Af þeim sökum fylgjumst við í nefndinni vel með framgangi og framþróun fríverslunarsamninga og förum árlega í svokallaða þriðju ríkja heimsókn til að styðja við gerð fríverslunarsamninga.

Eftir undirritun samnings við Ekvador 25. júní 2018 voru fríverslunarsamningar EFTA 28 talsins og tóku þeir til 39 ríkja. Jafnframt var undirrituð uppfærsla á fríverslunarsamningi EFTA við Tyrkland, sem nú er fyrir þinginu, frá árinu 1992 og tekur uppfærði samningurinn m.a. til vöru- og þjónustuviðskipta, upprunavottunar, verndar hugverkaréttar og sjálfbærrar þróunar.

EFTA á nú í fríverslunarviðræðum við Indland, Indónesíu, Malasíu, Víetnam og Mercosur sem er tollabandalag fjögurra Suður-Ameríkuríkja; Argentínu, Brasilíu, Paragvæs og Úrúgvæs. Heimsóttum við Mercosur-löndin í fyrra. Þá hefur þingmannanefnd EFTA ákveðið að fara á þessu ári, 2019, til Suður-Kóreu til að þrýsta á um að stjórnvöld þar hefji viðræður við EFTA um uppfærslu á fríverslunarsamningi frá 2005 sem bætti viðskiptakjör til samræmis við þau sem kveðið væri á um í fríverslunarsamningi ESB og Suður-Kóreu frá 2015. Við erum því í þessum fríverslunarmálum alltaf að reyna að fylgja Evrópusambandinu eftir í versta falli.

Aðeins um virkni EES-samningsins vegna þess að einn mikilvægasti þáttur þingmannanefndar EES er að fylgjast með virkni samningsins og tryggja honum gott gengi. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið verður 25 ára á þessu ári. Eins og öllum ætti að vera ljóst er þetta áberandi mikilvægasti alþjóðasamningurinn sem Ísland á aðild að að öðrum ólöstuðum. Þeir samningar eru náttúrlega allir frekar mikilvægir en það er einfaldlega þannig að enginn annar samningur hefur jafn mikil víðtæk og jákvæð áhrif á líf Íslendinga dags daglega og EES.

Það er sameiginleg ábyrgð EES/EFTA-ríkjanna og ESB að tryggja framkvæmd samningsins. Þar skiptir máli að stofnanir virki sem skyldi. Eftirlit með framkvæmd sé gott og að upptökuhallinn svokallaði, þ.e. listinn yfir þau mál sem eru enn í ferli frá því að vera ákveðin á Evrópuþinginu og ráðinu þar til þau eru komin til framkvæmdar í EES-ríkjunum, að þetta allt sé vel unnið. Um mitt ár 2018 biðu um 600 gerðir upptöku en yfir helmingur þeirra var á sviði eftirlits með fjármálamörkuðum. Þrátt fyrir þennan mikla fjölda gerða sem biðu upptöku kom fram í máli hæstv. utanríkisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, á fundi okkar að fleiri gerðir hefðu verið teknar upp í EES-samninginn árið 2017 en nokkru sinni fyrr, eða 514.

Búist er við að um 150 gerðir á því sviði verði teknar upp í EES-samninginn á fyrri helmingi ársins 2019 sem minnkar upptökuhallann umtalsvert. Mikilvægi þess að upptaka gerða í EES-samninginn gangi snurðulaust fyrir sig felst í því að tryggja lagalegt samræmi á innri markaðnum sem er ein forsenda virkni hans.

Ísland hefur bætt árangur sinn á þessu sviði en á árinu voru reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála endurskoðaðar með það að markmiði að gera EES-málum hærra undir höfði og auka um leið skilvirkni við upptöku og innleiðingu ESB-gerða. Þá gaf utanríkisráðuneyti út skýrsluna Gengið til góðs: Skref í átt að bættri framkvæmd EES-samningsins á árinu með tillögum um aðgerðir í því skyni. Þar á meðal er framlenging á sérstökum stuðningi við fagráðuneyti til að tryggja tímanlega innleiðingu EES-gerða og styrkingu sendiráðs Íslands gagnvart ESB í Brussel þannig að öll ráðuneyti eigi þar fulltrúa.

Ég hef farið yfir efni sem ég útbjó útdrátt úr, sem ég gerði aðeins hraðar en ég átti von á, en það er bara hið besta mál. Það eru auðvitað miklu fleiri mál sem hafa verið ofarlega á baugi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu. Þar má nefna þróun í alþjóðaviðskiptum og stöðu Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar, netöryggi, ákvæði um vinnuvernd og sjálfbærni í fríverslunarsamningum, neytendamál, #metoo og vinnumarkaðsmál og fleira. Það er auðvitað af nógu að taka þegar við erum að tala um þetta gríðarlega stóra fríverslunarnet sem við eigum aðild að. Með því að vinna vel að þessu starfi og sjá til þess að hlutverki Íslands innan þessarar nefndar, og í öllu starfi EFTA, sé gert hátt undir höfði þá erum við að tryggja að okkar hagsmunir verði framarlega í allri samningagerð og í allri vinnu sem snýr að innri markaðnum.

Ég hef í máli mínu fléttað svolítið saman starfi þingmannanefnda EFTA og EES og það er að hluta til vegna eðlis þessara tveggja nefnda. Þær eru mjög samþættar að verulegu leyti. Það er sama fólkið sem mætir á fundina að flestu leyti, en starfið hjá þingmannanefndum EFTA og EES heldur áfram undir formennsku Íslands á árinu 2019 og það er til margs að vinna með áframhaldandi framþróun í þessum málaflokki. Ég tel mjög mikilvægt að EES-samningnum verði gert hátt undir höfði á 25. afmælisári samningsins og ég vona að Alþingi geti staðið með nefndinni í því markmiði að reyna að gera þetta eitt besta árið fyrir EES-samninginn.