149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

alþjóðaþingmannasambandið 2018.

525. mál
[15:26]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef hingað til ekki vitað sérstaklega mikið um Alþjóðaþingmannasambandið. Þar er talað um að áhersla sé lögð á að standa vörð um mannréttindi í heiminum og eins á grundvallarþátt lýðræðis og þingræðis. Þá vinni IPU að styrkingu þjóðþinga og aðstoði við þróun lýðræðislegra vinnubragða innan þeirra. Þetta má lesa í almenna kaflanum. Hv. þingmaður minntist einmitt á þessa könnun sem var kynnt og rædd hér í þinginu í gær, hv. þingmenn Birgir Þórarinsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir ræddu það hér. Það finnst mér akkúrat vera í anda hugmyndarinnar sem á bak við stendur, sem rædd var undir almenna kaflanum.

Þarna eru 178 þjóðir undir og í skýrslunni er talað um að stuðla að friði og framþróun á tímum nýsköpunar og tæknivæðingar. Lögð er áhersla á að koma þurfi í veg fyrir að bilið milli vísinda og stjórnmála haldi áfram að breikka, ekki síst í ljósi þess að stefnumörkun sé í auknum mæli lituð lýðskrumi og tilfinningarökum í stað staðreynda og sannana. Þá var ítrekað rætt um stöðu kvenna á þjóðþingum heims og hvernig auka mætti aðgengi þeirra að þátttöku í stjórnmálum. Síðan koma þarna hlutir eins og netöryggismál og kjarnorkuvopn, það er farið mjög víða.

En hvernig vinnur þingið? Hvernig fer það áfram? Það ályktar og samþykkir. Eru unnar skýrslur eða hvernig vinna menn síðan áfram með málin? Maður sér líka að þetta er ákveðinn stuðningsaðili á bak við Sameinuðu þjóðirnar þegar maður les skýrsluna. Hvernig vinnur Alþjóðaþingmannasambandið út á við við að ná markmiðum sínum í vinnu sinni?