149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

alþjóðaþingmannasambandið 2018.

525. mál
[15:28]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Það er alveg rétt, það er tekið á mjög mörgu og margt rætt enda er yfirskrift þinganna oft nokkuð opin, gefur svolítið rými fyrir þessi fjölmörgu lönd til að koma með sína sýn á málin. Unnið er í ákveðnum fastanefndum, um frið og öryggismál, um sjálfbæra þróun, um efnahags- og viðskiptamál, um lýðræði og mannréttindamál og um málefni Sameinuðu þjóðanna. Þessar nefndir hittast síðan oftar og halda sérstök þing um ákveðin mál til að halda áfram þeim málum sem ályktað er um á þessum stóru haust- og vorþingum. Þá er oft farið í meiri nákvæmnisvinnu, fleiri smáatriði, hvernig hægt er að útfæra hlutina, þegar þingmenn fara til baka í þjóðþingið sitt, hver áherslan er og hvað við getum komið okkur saman um.

Auðvitað er virkilega áhugavert að starfa í Alþjóðaþingmannasambandinu því að þar eiga 178 þjóðþing fulltrúa. Þar sér maður hvernig heimurinn skiptist og hversu langt, eða öllu heldur skammt, á veg mörg ríki eru komin, aðallega þegar rætt er um mannréttindi og lýðræði. Því þykir mér auðvitað líka athyglisvert að svona rannsóknum, eins og hv. þingmaður benti á í upphafi andsvars síns, sé beint að Evrópulöndunum. Ég held að það væri fyrst áhugavert að sjá hvernig tölurnar væru ef við myndum horfa víðar en það.