149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

Evrópuráðsþingið 2018.

528. mál
[15:41]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég er komin hér sem sitjandi fulltrúi í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins og mig langaði að ræða aðeins um þessa merkilegu stofnun, nota þetta tækifæri hér til að tala um Evrópuráðið, Evrópuráðsþingið, mikilvægi þess og sögu og hvað við stöndum á miklum krossgötum núna, vegna þess að ég tel að það eigi fullt erindi inn í þá umræðu sem við eigum hér um ársskýrsluna.

Evrópuráðið fagnar 70 ára afmæli í ár. Það var sett á fót í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. Eins og ég hef alltaf skilið þetta voru tveir skólar alþjóðafræðinga sem veltu fyrir sér hvernig ætti að koma í veg fyrir að seinni heimsstyrjöldin myndi nokkru sinni endurtaka sig, að enn ein styrjöldin myndi brjótast út í Evrópu og þjóðirnar missa milljónir manna í slíkum styrjöldum. Einn skólinn gekk út á að það þyrfti efnahagslegt samband þessara þjóða, sérstaklega Frakklands og Þýskalands, og það þyrfti að gera það efnahagslega óhagkvæmt fyrir þjóðir að fara í stríð hver við aðra innan Evrópu. Úr því varð Kola- og stálbandalagið, sem síðar varð Evrópusambandið. Það hefur gengið svona líka ljómandi vel, alla vega er Evrópusambandið ekki mikið í stríði innbyrðis. Svo var annar skóli, hann kom kannski frekar frá Bretum á meðan Benelux-löndin töluðu skýrar fyrir Evrópusambandinu, um að það yrði einhvers konar samkunda eða diplómatískur klúbbur þar sem þjóðir Evrópu gætu rætt saman, komist að sameiginlegri niðurstöðu, samið alþjóðasamþykktir og sáttmála og unnið saman á fjölþjóðlegum vettvangi. Úr því varð Evrópuráðið. Þetta er grunnskilningur minn á því hvernig Evrópuráðið varð til.

Þetta er afskaplega merkileg stofnun. Hún samanstendur af 47 ríkjum þótt hún hafi ekki byrjað með svo mörg. Hún hefur þrjú grunngildi, mannréttindi, lýðræði og réttarríki, gríðarlega mikilvæg gildi. Þær þjóðir sem að þessari stofnun standa hafa það yfirlýsta markmið að vinna að þessum gildum og styrkja hver aðra í því. Meðal þess er Evrópuráðsþingið þar sem 324 fulltrúar frá þessum 47 löndum koma saman til að ræða ýmis mál og sérstaklega að flytja skýrslur og tilmæli til sinna meðlimaríkja og hafa eftirlit með mannréttindavernd, réttarríkisvernd og lýðræðisvernd innan sinna aðildarríkja. Þetta er mjög sterkur vettvangur vegna þess, eins og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, kom inn á rétt áðan, að þarna sitja þjóðkjörnir fulltrúar og hafa þar af leiðandi bæði þinghelgi og umboð sinnar þjóðar til þess að vera fulltrúar hennar á þessu þingi. Úr þessu skapast oft mjög líflegar umræður og líka mjög oft mikilvægar breytingar.

Dæmi um það er skýrsla frá svissneskum þingmanni, sem heitir Dick Marty, um fangaflug í Evrópu. Það eru kannski margir búnir að gleyma þeirri skýrslu, en ég er alla vega ekki búin að gleyma henni. Það kom í ljós vegna þeirrar skýrslu að 200 flugvélar sem tengdar voru við bandarísku alríkisþjónustuna millilentu hér á landi á ákveðnu tímabili og flugu svo til leynifangelsa Bandaríkjanna úti um allt þar sem fólk var pyndað. Mér þykja líkur á því að einhver hljóti að hafa tekið þátt í þessu hérna heima, varla hafi það farið fram hjá öllum lifandi mönnum á Íslandi að þetta væri í gangi, en það hafa ekki fengist fullnægjandi svör við því hvort sú hafi verið raunin. Mér finnst ekki að það hafi verið rannsakað á fullnægjandi hátt. En þetta var skýrsla sem kom frá Evrópuráðsþinginu og hafði víðtæk áhrif um alla Evrópu, hún varð til þess að miklu betra eftirlit var haft með því hverjir fengju að koma hérna og millilenda og í öðrum löndum og breytti landslaginu á ákveðinn hátt í fangaflugi alla vega í svartnættisfangelsi Bandaríkjanna. Það er bara eitt dæmi um eina skýrslu sem hefur skipt töluverðu máli sem hefur komið frá þessu þingi, þó að slíkar skýrslur séu ófáar.

Eins og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir kom inn á áðan er eitt af stærstu málunum í Evrópuráðsþinginu akkúrat núna fjarvera Rússa. Þeir hafa ekki sent sendinefnd á þingið síðan 2015. Nú er það líka svo að þeir neita að borga sín lögbundnu aðildargjöld til Evrópuráðsþingsins þannig að niðurskurður vofir yfir og það gæti orðið allt að 15% niðurskurður hjá Evrópuráðinu öllu. Það gæti mögulega haft alvarleg áhrif á það sem margir kjósa að kalla flaggskip Evrópuráðsins, sem er Mannréttindadómstóll Evrópu. Margir vilja að sjálfsögðu halda hlífiskildi yfir Mannréttindadómstólnum en þá spyr maður sig hvar við eigum að skera niður. Í Evrópuráðinu er líka Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum og vanvirðandi eða ómannlegri meðferð eða refsingu. Sú nefnd gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki. Ættum við að skera niður þar?

Mér hefur þótt það koma mjög óskýrt fram hjá framkvæmdarvaldinu og framkvæmdarvaldshliðinni í Evrópuráðinu hér heima og annars staðar og öllum þeim sem ég hef talað við sem vettlingi geta valdið gagnvart fjármagni Evrópuráðsins hvort ríkisstjórnir þeirra ríkja sem fara með fjárveitingavaldið séu reiðubúnar að hlaupa undir bagga með þessari stofnun og tryggja að niðurstaðan verði ekki að við þurfum að skera niður það mikilvæga starf sem við vinnum að í Evrópuráðinu. Mér hefur ekki þótt það koma skýrt fram og mér þykir það miður. Ég hvet hæstv. utanríkisráðherra okkar til að íhuga það alvarlega hvort hann vilji leiða hóp þeirra ríkja sem munu styrkja Evrópuráðið á þann hátt að ekki þurfi að skera niður starfsemi sína vegna þess að Rússar neiti að borga sín lögbundnu meðlimagjöld.

Á þessum örfáu mínútum sem ég á eftir, herra forseti, vil ég rétt drepa á það að síðasta sumar var ég kjörin formaður laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins. Mér er mjög annt um þetta hlutverk sem mér var falið og þykir mjög vænt um að mér hafi verið treyst til að sinna því. Og það er afskaplega ánægjulegt að fá að sinna þessu hlutverki vegna þess að í því kynnist maður ótrúlega mörgum öngum þess mikilvæga starfs sem fer fram á sviði Evrópuráðsþingsins. Mjög mörg félagasamtök eru að berjast fyrir réttlátari heimi í sínum heimalöndum og jafnvel í allri Evrópu. Stundum fær maður líka að taka þátt í alþjóðlegum ráðstefnum og öðrum viðburðum fyrir hönd nefndarinnar. Fékk ég m.a. að vera með innkomu á hliðarviðburði á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þar sem ýmis ríki, 37 ríki, eru að reyna að koma sér upp regluverki til að koma í veg fyrir verslun á vörum sem einungis er hægt að nota til pyndinga. Þar er um ýmis hræðileg tól að ræða. Þarna ætla ríki heims að reyna að koma sér saman um regluverk sem kemur í veg fyrir að tól sem einungis er hægt að nota til pyndinga, eða sem líklegt er að verði notuð til pyndinga, gangi ekki kaupum og sölum og séu ekki seld til þeirra ríkja sem líklega eru að misnota sér þennan búnað, og koma líka á allsherjarbanni við sumum þessara vara. Það var afskaplega áhugavert. Þar var hæstv. utanríkisráðherra með tilkynningu líka um að til stæði að bæta regluverkið á Íslandi til þess að við myndum leggja okkar af mörkum til að búnaður sem þessi gengi ekki kaupum og sölum.

Sem formaður nefndarinnar var ég líka kjörin framsögumaður vegna skýrslu um pólitíska fanga í Aserbaídsjan. Nú hefur nefndin skoðað inngang að skýrslunni minni, eða yfirlit yfir það hvernig sú skýrsla mun líta út, og hefur samþykkt að ég fái heimild til að fara til Aserbaídsjan til að hitta þar fanga, sem taldir eru pólitískir fangar, til að taka út stöðuna. Mjög þungar ásakanir hafa verið uppi gagnvart stjórnvöldum í Aserbaídsjan, að þau fangelsi fólk sem er með einhvers konar andóf gegn stjórn sem sumir draga í efa að sé lýðræðisleg stjórn yfir höfuð.

Þar að auki lagði Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins fram tillögu, sem hún dró svo reyndar til baka, um að haldin yrði sérstök umræða á þinginu sem var haldið í janúar um þessa skýrslu, sem hv. þingmenn Birgir Þórarinsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir hafa komið inn á, skýrslu Alþjóðaþingmannasambandsins um þá áreitni sem konur í stjórnmálum verða fyrir. Þess í stað verður farin sú leið að við ætlum að skrifa skýrslu, og ég er framsögumaður hennar, um kynferðislega áreitni í þjóðþingum, um „sexisma“ í þjóðþingum, eins og það er kallað, og leggja til að við uppfærum siðareglur okkar í Evrópuráðsþinginu til að taka á þessum vanda og fjalla um hvernig megi bregðast við því ofbeldi sem konur verða fyrir í stjórnmálum í störfum sínum. Ég hlakka til að takast á við það verkefni. Vonandi verður sú skýrsla á dagskrá í apríl á þingi (Forseti hringir.) Evrópuráðsþingsins. Ég vona að ég hafi betri fréttir að færa að heiman þá en nú.