149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

Evrópuráðsþingið 2018.

528. mál
[15:52]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og vil einnig nota tækifærið og þakka formanni Íslandsdeildarinnar, hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur, fyrir afar góða og greinargóða skýrslu og mjög fræðandi um starfsemi Evrópuráðsins. Ég vil einnig óska hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur til hamingju með formennskuna í laga- og mannréttindanefndinni. Ég hef haft tækifæri sem varamaður Íslands í Evrópuráðinu til að fylgjast aðeins með hennar störfum þar og eru þau til mikils sóma. Hún er vel að því komin og afar ánægjulegt að fylgjast með hennar störfum við Evrópuráðið, og sömuleiðis formanni Íslandsdeildarinnar.

Mig langar að fá aðeins meiri umræðu um þann niðurskurð sem fram undan er í Evrópuráðinu vegna þess að Rússar hafa ekki staðið við sín framlög til ráðsins. Nú hef ég heyrt af því að svo geti farið að allt að 200 manns við ráðið verði sagt upp störfum sem hlýtur að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir þá viðamiklu og mikilvægu starfsemi sem þar fer fram. Því miður hefur ekki tekist að ná ásættanlegri niðurstöðu við Rússa um fjárframlag þeirra. Það væri gott ef hv. þingmaður gæti farið aðeins nánar út í þetta, hvað hún sér fyrir sér og hvaða áhrif þetta geti haft á það mikilvæga starf sem fer fram innan Evrópuráðsins.