149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

Evrópuráðsþingið 2018.

528. mál
[15:56]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni mjög athyglisvert svar. Maður spyr sig einmitt: Gætu hugsanlega verið einhverjar pólitískar ástæður að baki því að aðildarríkin sjái sér ekki fært að auka framlög til að mæta þessum niðurskurði sem er til kominn vegna þess að eitt aðildarríkjanna, Rússland, greiðir ekki sín lögbundnu framlög og hefur ekki greitt?

Við sjáum t.d. eins og hv. þingmaður nefndi áðan mjög mikilvægt mál sem er eftirlit með pólitískum föngum í Aserbaídsjan. Þetta er alveg klassískt mál sem er hægt að tengja við þessa umræðu og það sem hv. þingmaður kom inn á, að hugsanlega eru þarna ríki sem vilja í raun og veru ekki hafa mikið af þessu að segja, að það komi eftirlitsnefndir og að fylgst sé með málum eins og þessum.

Þetta er afar athyglisvert svar frá hv. þingmanni og ég hvet hana til að koma þessu á framfæri með blaðagrein eða einhverju þvílíku, vegna þess að þetta er mjög athyglisvert. En auðvitað vonum við að það náist einhver niðurstaða við Rússland. Ég tel það mjög óheppilegt ef Rússland fer úr ráðinu vegna þess að það bitnar fyrst og fremst á almenningi í Rússlandi. Við þekkjum það að þar viðgangast mannréttindabrot og ef menn hafa ekki pólitískar skoðanir sem eru þóknanlegar stjórnvöldum þar getur það valdið almenningi vandræðum. Þessu þarf auðvitað að fylgjast náið með og það er einn af hornsteinum Evrópuráðsins að fylgjast með mannréttindum í löndum aðildarríkjanna. Ég vona svo sannarlega að það takist að ná lendingu hvað Rússland varðar. (Forseti hringir.) En ég þakka hv. þingmanni fyrir gott svar.