149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

495. mál
[16:06]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég veit að hann er ekki sérfræðingur á þessu sviði en mig langar samt til að spyrja hann. Ég tók eftir því í 6. gr. frumvarpsins um breytingar á lögum um umboðsmann skuldara að þar er fjallað um heimildir umboðsmanns til að afla upplýsinga þegar einstaklingar óska eftir aðstoð hans. Samkvæmt greininni fær umboðsmaður heimild til að afla þeirra upplýsinga sem hann telur nauðsynlegar til að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu en honum er m.a. veitt heimild til að afla upplýsinga um framferði einstaklings.

Í greinargerð er það skýrt svo að hann geti óskað eftir gögnum og upplýsingum um heilsufar, félagslegar aðstæður og upplýsingar sem varða sakfellingar í refsimálum og refsiverð brot. Ég viðurkenni að ég á dálítið erfitt með að skilja af hverju umboðsmaður skuldara þarf svo ítarlegar upplýsingar sem lagt er til að færa honum. Ég sé ekki þörfina á því fyrir umboðsmann skuldara að afla heilsufarsupplýsinga um skjólstæðinga sína eða um refsiverð brot þeirra að því gefnu að einstaklingarnir séu skuldlausir við ríkissjóð.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi einhverja innsýn inn í þetta, hvers vegna svo langt er gengið og hvort þörf sé á þessu, bara svona til að hafa það sem veganesti inn í þá vinnu sem við förum í í velferðarnefnd þegar málið kemur til okkar.