149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

skattkerfið.

[15:05]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég skal með gleði fara aðeins inn á það sem þessi ríkisstjórn hefur verið að gera í skattamálum og ég get fullvissað hv. þm. Loga Einarsson um að hann mun sjá þar ýmsar aðgerðir til jöfnunar.

Ef við byrjum á því sem hv. þingmaður nefndi, hvernig skattbyrði hefur þróast með ólíkum hætti á ólíka tekjuhópa, er það ekki síst vegna þess að þær breytingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu allt frá 2010 þegar tekið var upp þriggja þrepa skattkerfi og síðan í kjölfarið þegar næsta ríkisstjórn á eftir felldi út miðþrepið, hafa þrepin fylgt ólíkri vísitölu, neysluvísitölu annars vegar, neðra þrepið, og launavísitölu, efra þrepið.

Þetta hefur gert það að verkum að skattbyrðin hefur þróast með ólíkum hætti á ólíka tekjuhópa. Það hefur Alþýðusamband Íslands réttilega gagnrýnt. Og hvað gerði sú ríkisstjórn sem ég leiði um síðustu áramót? Þó að hv. þingmaður hafi kannski ekki tekið eftir því voru mörkin færð þannig að nú fylgja þau bæði neysluvísitölunni, bæði efri og neðri mörkin. Það er til þess að auka jöfnuð í skattkerfinu, til upplýsingar fyrir hv. þingmann.

Hv. þingmaður spyr líka um fjármagnstekjuskatt. Við skulum rifja það upp að fjármagnstekjuskattur var 10% þegar Vinstrihreyfingin – grænt framboð og Samfylkingin fóru saman í ríkisstjórn 2009. Við hækkuðum hann í 20% og þar hefur hann setið þar til Vinstrihreyfingin – grænt framboð fór aftur í ríkisstjórn núna þegar hann var hækkaður úr 20% í 22%.

Hins vegar væri það áhugavert verkefni, og ég er sammála hv. þingmanni um það, að bera saman fjármagnstekjuskatt milli ólíkra landa þar sem við höfum haft tiltölulega lága skattprósentu hér á landi en breiðan tekjustofn, breiðan skattstofn, án mikilla undanþága. Ef við lítum til nágrannalanda okkar er skattprósentan hærri. Hún er mismunandi eftir því hvort hún fellur á sparnað, hagnað eða arðgreiðslur. Og undanþágurnar eru með allt öðrum hætti en í kerfinu hér.

Ég myndi gjarnan vilja sjá fara fram úttekt á skattstofni fjármagnstekjuskatts, og það er það sem boðað er í stjórnarsáttmála, þannig að við getum tekið raunverulega (Forseti hringir.) umræðu um þessi mál.

En tvær mínútur dugðu víst ekki til því að ég á eftir að ræða við hv. þingmann um hvort hann telji bensíngjöld vera sameiginlegan sjóð því að væntanlega eiga þau allnokkuð skylt við þau veggjöld sem nú eru til umræðu.