149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

skattkerfið.

[15:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er svo margt sem þarf að koma inn á í þessum málum því að þetta tengist síðan bótakerfinu. Ég hlýt líka að minna á að um áramótin hækkuðu barnabætur verulega þannig að nú skerðast þær ekki fyrr en við lágmarkslaun. Þeim fjölgaði um 2.200 sem eiga rétt á barnabótum. Það er líka jöfnunaraðgerð.

Hv. þingmaður kom að auðlindagjöldum í fyrri spurningu sinni. Við erum búin að setja á veiðigjöld sem miðast við 33% gjaldhlutfall ofan á aðra skatta sem sjávarútvegurinn greiðir. Er það nægjanlegt? Við getum tekist á um það, en mikilvægast er að þau fylgi afkomunni þannig að þeir sem hafa hag af því að nýta hina sameiginlegu auðlind okkar skili ákveðnu hlutfalli af þeirri afkomu til samfélagsins.

Ég tel, herra forseti, mjög mikilvægt að við náum aukinni sátt um skattheimtu í samfélaginu og ég tel að við séum að stíga skref í þá átt með þeim aðgerðum sem við erum að fara í og með þessu virka (Forseti hringir.) samtali við vinnumarkaðinn. Að sjálfsögðu verða aldrei allir sáttir en það liggur líka fyrir að ríkisstjórnin hefur boðað tillögur í skattamálum sem eiga að koma þeim best sem eru með lægri tekjur vegna þess að við viljum efla jöfnunarhlutverk skattkerfisins. Ég vona að um það geti orðið sátt.