149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

staða Íslands gagnvart ESB.

[15:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Eins og hæstv. forsætisráðherra veit hefur ekki alltaf verið fullkomin málefnaleg samstaða í stjórnarandstöðunni. Það er eðlilegt því að stjórnarandstaða er ekki mynduð um sameiginlega stefnu. Við höfum einsett okkur í Miðflokknum að styðja aðra flokka í góðum málum, hvort sem þeir eru í ríkisstjórn eða ekki. Nú er komið að því að gleðja hæstv. forsætisráðherra.

Eins og hæstv. ráðherra er vel kunnugt um sleit Ísland viðræðum við Evrópusambandið 12. mars 2015. Ég fylgdi því svo eftir með bréfi og heimsóknum til Jean-Claudes Junckers og Donalds Tusks til að árétta að umsókn Íslands hafi endanlega verið dregin til baka, væri fallin úr gildi. Í vikunni hyggst ég leggja fram þingsályktunartillögu, leggja til að Alþingi fagni því að umsóknin um aðild að Evrópusambandinu sé úr sögunni en álykti um leið að ekki skuli sótt um að nýju án þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég ætlast ekki til að hæstv. forsætisráðherra lýsi yfir stuðningi við þingsályktunartillögu sem er ekki komin fram en getur hæstv. forsætisráðherra tekið undir það með mér að það sé fagnaðarefni að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu skuli hafa verið dregin til baka? Og jafnframt að menn sæki ekki aftur um aðild að ESB án þess að almenningur hafi fyrst lýst vilja til þess í þjóðaratkvæðagreiðslu?