149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

staða Íslands gagnvart ESB.

[15:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Það er ánægjulegt að heyra. Ég skil þá hæstv. ráðherra sem svo að það sé hennar skoðun að fullt tilefni sé til þess fyrir Alþingi að árétta að ekki skuli sótt um aðild aftur án þess að almenningur, þjóðin, hafi lýst yfir vilja til þess í þjóðaratkvæðagreiðslu. En hvað með fyrra atriðið? Er hæstv. ráðherra ekki líka sammála mér um að það sé mjög ánægjulegt, að það hafi verið góð niðurstaða að Ísland skuli hafa dregið umsókn sína til baka og að við skulum ekki hafa hana hangandi yfir okkur núna? Ég tala nú ekki um þegar við sjáum hvernig hlutirnir hafa þróast í Evrópusambandinu á þeim árum sem liðin eru í millitíðinni og vandræðin sem Bretar standa frammi fyrir við að reyna að komast út úr því. Er ekki óhætt að segja að það hafi verið vel sloppið hjá okkur Íslendingum að dragast ekki lengra þar inn og hafa dregið umsókn um aðild að Evrópusambandinu til baka?