149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

Brexit.

[15:19]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það kom mér á óvart að sjá yfirlýsingu norska menntamálaráðherrans í ljósi þess að íslenskir ráðherrar og íslensk stjórnvöld hafa átt samskipti við starfsbræður sína og starfssystur í bresku ríkisstjórninni. Ég átti mjög góðan fund með forsætisráðherra Bretlands, Theresu May, nú í haust, í lok október, þar sem m.a. var rætt um, og við sammæltumst um, að réttindi íslenskra borgara og breskra ríkisborgara yrðu áfram tryggð með óbreyttum hætti. Það sama hefur verið rætt hvað varðar réttindi námsmanna sem hafa verið ólík að því leyti að ekki gilda nákvæmlega sömu reglur í Bretlandi og annars staðar í Evrópusambandinu, t.d. hvað varðar gjaldtöku, en það hefur hins vegar verið rætt um að þessi réttindi, eins og þau hafa verið, haldist tryggð. Ég get fullvissað hv. þingmann um að hæstv. utanríkisráðherra og utanríkisráðuneytið hefur unnið að því að við værum tilbúin með ólíkar sviðsmyndir til þess að tryggja öll réttindi og greiðar leiðir á milli Íslendinga og Breta enda miklir viðskiptahagsmunir undir. Bretland vegur mjög þungt þegar kemur að viðskiptahagsmunum Íslendinga þannig að að þessu hefur verið unnið.

Við höfum verið að miða við ólíkar sviðsmyndir af því að óvissan hefur verið mikil og það er sérstakt umhugsunarefni nú þegar við erum að nálgast þennan dag — ég man ekki nákvæmlega hve margir dagar eru til þessarar lokadagsetningar sem hv. þingmaður nefndi. Óvissan er enn mjög mikil, hvort bráðabirgðalending næst eða hvort það stefni hreinlega í hart Brexit. Ég get fullvissað hv. þingmann um, og ég tel að hv. utanríkismálanefnd hafi átt að vera upplýst um það, að unnið hefur verið að undirbúningi fyrir ólíkar sviðsmyndir. En það liggur fyrir að Brexit án samnings verður erfiðara í framkvæmd, (Forseti hringir.) líka fyrir okkur, en Brexit með samningi.