149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

Brexit.

[15:23]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég átta mig ekki á því hvað hv. þingmaður er að fara. Við Theresa May gáfum út sameiginlega yfirlýsingu um réttindi borgaranna sem birtist opinberlega. Hv. þingmaður þarf ekkert að draga það í efa. Það kann vel að vera að breska ríkisstjórnin sé ekki með neitt plan sem gerir auðvitað plön annarra flóknari. Ég held að hv. þingmaður ætti að vita það, ef hún hefur fylgst með umræðunni í Bretlandi, að það er kannski meiri óvissa um hvert planið er þar.

Íslenska ríkisstjórnin er búin að fylgjast með þessu. Hv. þingmanni ætti að vera vel kunnugt um að utanríkisráðuneytið er búið að teikna upp ólíkar sviðsmyndir og eiga óteljandi samtöl, hvort sem er við sína kollega í embættismannastétt eða stjórnmálastétt. Sama á við um okkur ráðherra. Okkar markmið er auðvitað fyrst og fremst að tryggja hagsmuni og réttindi Íslendinga.

Hv. þingmaður hlýtur að átta sig á því að við erum hér í samskiptum við ríki þar sem enn er töluverð óvissa um hvernig Brexit verður háttað. Augljóslega er íslenska ríkisstjórnin ekki með neitt eitt plan því að við vitum ekkert hver niðurstaðan verður í Bretlandi. (ÞKG: Ekki tilbúin …?)