149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

málefni aldraðra.

[15:26]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrirspurnina. Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að niðurstaðan varð sú að synja þessari beiðni frá Hafnarfirði en það á sér þá skýringu að ekki hafa náðst samningar um rammasamning Sjúkratrygginga Íslands við þjónustuveitendur. En hér er um að ræða gríðarlega mikilvægan málaflokk, málaflokk sem ég vil leggja sérstaka áherslu á á þessu ári og hef raunar fengið leiðsögn þingsins í því að það skorti stefnu í málefnum heilabilaðra á Íslandi. Alþingi hefur ályktað að fela ráðherra að slík stefnumótun fari fram og hún er komin núna í gang.

Ég vil geta þess í svari mínu við þessari spurningu, af því að það er talað um þessa ákvörðun eins og hún sé í algeru tómarúmi, að á síðasta ári var samþykkt erindi frá Hrafnistu í Reykjavík um að breyta 11 hjúkrunarrýmum í 30 dagdvalarrými fyrir fólk með heilabilun. Það var gert í haust sem leið og hafði auðvitað gríðarlega mikil áhrif á þennan viðkvæma málaflokk. Og af því að hv. þingmaður spyr hvort það sé virkilega engin önnur úrræði að finna en bráðamóttöku Landspítalans, þá var núna um síðustu áramót ákveðið að auka fjárveitingu um 130 milljónir til að efla heimahjúkrun. Það er úrræði sem við þurfum að efla verulega og það er mjög mikilvægt að koma á fót sérhæfðri heimahjúkrun við aldraða og tryggja áframhaldandi styrkingu heimahjúkrunar í takt við áherslur yfirvalda um að styðja við sjálfstæða búsetu.

Þetta eru allt saman verkefni sem hanga saman, en varðandi þetta tiltekna verkefni sem hv. þingmaður spyr um þá á synjunin rætur að rekja til þess sem hér hefur komið fram að ekki liggur fyrir samningur við Sjúkratryggingar Íslands.