149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

málefni aldraðra.

[15:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Að vanda erum við hv. þingmaður sammála um mikilvægi þess að gæta vel að að mannsæmandi umhverfi fyrir viðkvæmustu hópana í þessu samfélagi. Það er svo sannarlega löngu tímabært að við tökum höndum saman og tryggjum að við forgangsröðum í þágu þessara hópa. Það er það sem við erum að gera með því að setja fram löngu tímabæra heilbrigðisstefnu.

Mig langar líka að geta þess í þessu svari að hvíldarinnlagnir eru líka stór þáttur í stuðningi við áframhaldandi sjálfstæða búsetu og skipta máli í þessum efnum, ekki síður að því er varðar aðstandendur og fjölskyldu.

Á næstu tveimur árum erum við að fjölga hjúkrunarrýmum um tæp 200 rými, flest á höfuðborgarsvæðinu. Hafinn er undirbúningur fyrir 206 ný hjúkrunarrými í viðbót og þar að auki eru uppi áform um byggingu 266 nýrra rýma til viðbótar á næstu árum. Þannig að við látum virkilega hendur standa fram úr ermum í því að fjölga hjúkrunarrýmum, (Forseti hringir.) ekki síst þeim sérhæfðu rýmum og dagdvalarrýmum sem hér er rætt um.