149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

veggjöld.

[15:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Á morgun hefst seinni umræða um samgönguáætlun á þingi. Miðað við yfirlýsingar lítur hins vegar ekki út fyrir að þessi áætlun verði mjög langlíf, enda er þegar búið að boða endurskoðun næsta haust, endurskoðun sem er knúin með veggjöldum. Nú sagði hæstv. forsætisráðherra að ýmislegt væri boðað í stjórnarsáttmála og hæstv. samgönguráðherra hefur einmitt sagt í viðtali að ekki sé stafkrókur um veggjöld í stjórnarsáttmálanum. Spurningu fréttamanns um hvort engar áætlanir séu um slíkar aðgerðir svarar ráðherra: Nei, þær voru lagðar til hliðar og ýmsar aðrar álögur sem stóð til að leggja á bíla þó svo að við séum að taka upp græna skatta eins og kolefnisskatta.

Í stjórnarsáttmálanum segir einmitt um samgöngur að svigrúm sé á næstu árum til að nýta eignatekjur ríkisins í slík verkefni. Skilaboðin í upphafi kjörtímabilsins voru skýr: Stórsókn í samgönguframkvæmdum og engin veggjöld. Stórsóknin reyndist hins vegar vera miklu minni en meðaltal meira að segja og loforðið um engin veggjöld hvarf á sama tíma.

Forseti. Nú eigum við að vera að vinna eftir lögum um opinber fjármál þar sem grunngildi ábyrgrar fjármálastjórnunar eru stöðugleiki og festa þar sem stefna stjórnvalda er sett fram í stjórnarsáttmála og útfærð í fjármálaáætlun. Þar eru markmiðin fest á blað, en loforðin um stórsókn án veggjalda er að finna í stjórnarsáttmálanum og orðum ráðherra í upphafi kjörtímabilsins. Á hverju megum við þá eiga von þegar þau loforð fljúga út um gluggann ári seinna? Hvað þarf til þess að brjóta stjórnarsáttmálann? Hversu mikils virði er hann þegar annars vegar er hitt og þetta boðað í stjórnarsáttmála og hins vegar ekkert farið eftir því? Eru þetta kröfur Sjálfstæðisflokksins sem vill setja eignatekjur ríkisins í þjóðarsjóð? Getur fjármálaráðherra ekki bara lagt til að fjármagna þjóðarsjóðinn með veggjöldum í staðinn fyrir samgöngurnar þar sem ekkert er um þær er að finna í stjórnarsáttmálanum?

Eigum við ekki skilið að fá smáfestu og stöðugleika í íslenskt efnahagslíf og skattheimtu í stað svona hringlandaháttar? Ef ríkisstjórnin getur ekki staðið við þessi orð í (Forseti hringir.) eigin ríkisstjórnarsáttmála, hvernig á hún þá að geta staðið við eitthvað annað sem stendur þar?