149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

veggjöld.

[15:33]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir áhugaverða fyrirspurn sem virðist snúast um þá furðulegu sýn þingmannsins að einungis það sem standi í stjórnarsáttmála samsteypustjórnar þriggja flokka sé það sem eigi að gera og ekkert annað. Alveg sama hvað kemur upp á, til að mynda loftslagsaðgerðir ríkisstjórnar, áform um orkuskipti í samgöngum, til að mynda upplýsingar sem voru gefnar út eftir að stjórnarsáttmálinn lá fyrir um að tekjur af eldsneytisgjöldum sem standa einmitt undir vegaframkvæmdum muni hugsanlega rýrna um allt að 50% á næstu sjö árum.

Á þá ríkisstjórnin að gera ekkert af því að menn höfðu ekki skrifað það í stjórnarsáttmála? Hvers lags eiginlega endemis þvæla er þetta, hv. þingmaður? Auðvitað þurfum við að bregðast við á hverjum tíma. Hér leggjum við upp með ákveðna hluti. Samgönguáætlun kom fram. Þegar ég lagði hana fram sagði ég að í hinum fullkomna heimi hefði ég gjarnan viljað koma með þessa samgönguáætlun ári síðar, eftir eitt ár, þegar búið væri að spila úr öllum þeim hlutum sem við vorum með. Þess vegna gaf ég það strax til kynna að það gæti vel verið að það kæmi ný samgönguáætlun innan þess tíma, enda skal leggja fram samgönguáætlun á a.m.k. þriggja ára fresti. Það er ekkert verið að bregða út af því.

Það er rétt sem hv. þingmaður sagði að ég hefði sagt í upphafi: Það stendur ekkert um vegtollahlið í minni forskrift. Ég hef hins vegar aldrei talað gegn Hvalfjarðargangamódelinu, aldrei nokkurs staðar, nokkurn tímann og ekki minn flokkur. (Gripið fram í.) Þegar við erum að ræða þessa hluti væri ágætt að við værum tilbúin að setja staðreyndirnar á borðið og reyna síðan að ræða okkur fram til hinnar skynsamlegustu lausnar.

Eitt af því sem er skynsamlegast er að viðhalda stöðugleika í samfélaginu. Ég er sammála hv. þingmanni í því. Þar af leiðandi þurfum við að umgangast fjármálastefnu af þeirri virðingu sem hún þarf að hafa til að það sé agi í fjármálum. Fjármálaáætlun er hluti af því. (Forseti hringir.) Við erum einfaldlega að leita leiða til að ná því að flýta framkvæmdum, sem er ákall um í samfélaginu. Hvernig við fjármögnum það nákvæmlega mun koma í ljós. Þess vegna getum við afgreitt samgönguáætlun næstu daga, alveg óháð því, (Forseti hringir.) enda munu alltaf koma til nýjar ákvarðanir og þær verða ræddar hér í þinginu og þurfa stuðning þingsins til þess að verða að veruleika.