149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

veggjöld.

[15:36]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta var áhugaverður útúrsnúningur á vegtollahliðum og veggjöldum. Skilur einhver muninn á því? Hvernig eru vegtollahlið í nútímanum? Keyrir fólk ekki bara fram og til baka og það er rukkað með rafeindabúnaði eða einhverju slíku? Það er enginn munur á veggjöldum og vegtollahliðum. Það er einhver útúrsnúningur í gangi hjá hæstv. ráðherra.

Hæstv. ráðherra sagði einmitt að það væri ekki stafkrókur um veggjöld, vegtollahlið eða neitt svoleiðis. Það er fullt af leiðum til að fjármagna þessar framkvæmdir. Þær hafa komið fram í umfjöllun umhverfis- og samgöngunefndar. Ein af þeim er t.d., eins og ég nefndi, í stjórnarsáttmálanum:

„Svigrúm er á næstu árum til að nýta eignatekjur ríkisins í slík verkefni …“

Er það ekki hægt lengur af því að það á að nýta þær í þjóðarsjóð? Þær hurfu allt í einu þangað. Það er breyting á stefnu stjórnvalda. Og það er það sem ég kalla hringlandahátt þegar ári eftir að búið er að setja stjórnarsáttmála fyrir kjörtímabil, sem á að vera grundvöllurinn að því sem boðað er í stjórnarsáttmála, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði í óundirbúnum fyrirspurnum rétt áðan … (Forseti hringir.) Ef eitt á að standa sem boðað er í stjórnarsáttmála, af hverju á annað sem boðað er í stjórnarsáttmála ekki að standa?