149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

veggjöld.

[15:37]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég náði ekki að koma því að í fyrra svari mínu að það er akkúrat það sem lagt er af stað með í samgönguáætlun. Það er verið að nota eignatekjur. Ólíkt því sem margir hér í þessum sal hafa skilið þegar við vorum að afgreiða fjárlög, og vildu fara að nota arðgreiðslur úr bönkunum, voru einmitt í fyrsta skipti í síðustu fjármálaáætlun teknar inn arðgreiðslur til þriggja ára. Af hverju ekki til lengri tíma? Vegna þess að það er varúðarsjónarmið að ganga ekki lengra. Þarna er verið að tala um 5,5 milljarða á ári til uppbyggingar samgöngumála.

Þess vegna má velta því fyrir sér að í samgönguáætlun sem lögð verður fram núna í vor sé hægt að bæta við einu ári enn og ríkisstjórnin haldi þess vegna áfram á þeim nótum. Þessar tekjur hafa aldrei verið áætlaðar nema þrjú ár fram í tímann og þær eru sannarlega í samgönguáætlun, eignatekjur notaðar upp á 16,5 milljarða, aldrei hærri fjárhæðir sem hafa verið settar í samgönguáætlun. En ákallið úr samfélaginu, ákallið sem ég veit að ekki síst þingmenn umhverfis- og samgöngunefndar hafa fundið fyrir í vinnu sinni við samgönguáætlun, (Forseti hringir.) var að það þyrfti að gera enn meira. Við höfum verið að leita leiða til þess. Öll svörin hafa ekki legið á borðinu og þess vegna þurfum við að koma með nýja samgönguáætlun næsta haust.