149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

Landeyjahöfn.

[15:39]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (U):

Herra forseti. Greiðar samgöngur eru hverju byggðarlagi nauðsynlegar. Ríkisvaldið hefur tekið að sér að halda byggðum landsins í viðunandi tengingum sín á milli og við höfuðborgina með vegum, flugi og í nokkrum tilfellum með ferjusiglingum. Til höfuðborgarinnar sækja allir landsmenn margháttaða þjónustu og nægir þar að nefna nú orðið öll meiri háttar sjúkrahús- og læknisþjónustu, stjórnsýslu ráðuneyta og löggjafarvalds og margt annað.

Að undanförnu um langan tíma hefur það eðlilega vakið vonbrigði margra Eyjamanna að í norðanblíðviðri sé ekki siglt í Landeyjahöfn. Gekk það svo langt að í síðustu viku bókaði öll samanlögð bæjarstjórnin í Vestmannaeyjum um ástandið. Dýpkun í Landeyjahöfn er mikið í umræðunni í Vestmannaeyjum enda höfnin lokuð og ekki verið að dýpka þrátt fyrir fögur fyrirheit og ágætar aðstæður. Vegagerðin tók í haust ákvörðun um að semja við nýjan aðila um dýpkun hafnarinnar næstu þrjú árin og það þrátt fyrir hávær mótmæli bæjaryfirvalda, enda fyrri aðili þekktur fyrir að standa sig framar öllum vonum við starfann. Að ósk bæjarstjórnar var síðan boðin út febrúardýpkun í Landeyjahöfn en tilboðum í þá dýpkun var öllum hafnað. Í framhaldinu var tekin ákvörðun innan Vegagerðarinnar um að leita samninga við þann sem var næstur kostnaðaráætlun.

Því spyr ég hæstv. samgönguráðherra: Hvernig ganga þessar samningaviðræður og hvenær má eiga von á því að þessir samningar verði kláraðir svo höfnin komi að gagni í vetrarblíðviðri eins og nú er?