149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

Landeyjahöfn.

[15:41]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég get vel skilið og tekið undir áhyggjur sveitarstjórnarmanna í Vestmannaeyjum af því að ekki sé hægt að sigla í Landeyjahöfn þegar veður eru góð. Ef menn horfa aðeins til baka voru þær frátafir sem voru áætlaðar, einmitt í desember og janúar, allmiklar í þeim áætlunum sem uppi voru og sérstaklega á því skipi sem enn er verið að nota. Meira að segja gengu menn svo langt í þeim spám að ólíklegt væri að gamli Herjólfur gæti gengið í Landeyjahöfn þegar menn lögðu af stað með þetta.

Væntingarnar voru upphaflega þær að höfnin yrði ekki opin nema miklu skemmri tíma, kannski átta eða níu mánuði, en síðan hafa menn áætlað að með nýju ferjunni yrðu frátafirnar miklu minni.

Þess vegna skil ég vel að þegar menn upplifa hvað það eru miklu betri og eðlilegri samgöngur þegar ferjan geti gengið í Landeyjahöfn vilji þeir hafa slíkar væntingar alltaf. Það gildir um allt land og ákall allra sveitarstjórnarmanna hringinn í kringum landið og íbúa um að þeir geti komist alltaf um, alla daga. Við erum alltaf að reyna að bæta þjónustuna, hvort sem er snjómokstur eða hálkuvarnir, til þess einmitt að koma til móts við það að allt landið sé opið alltaf. Við vitum hins vegar að svo verður ekki. Við höfum ekki stjórn á náttúrunni.

Nýi Herjólfur er ekki kominn og um það hvar nákvæmlega samningar sem eru í gangi akkúrat þessa dagana eru staddir milli Vegagerðarinnar og einhvers tilboðsaðila um dýpkun hef ég ekki upplýsingar. Ég skal komast að því og láta þingmanninn vita.