149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

Landeyjahöfn.

[15:43]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (U):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Fyrst hann nefndi þetta með Landeyjahöfn var mikil bjartsýni ríkjandi í Eyjum 2010 við opnun Landeyjahafnar. 97% ferða allan ársins hring í hina nýju Landeyjahöfn áttu að vera tryggar með tilkomu hafnarinnar 2010. Nú eru miklar væntingar bundnar við komu nýs skips í vor í stað hins 27 ára gamla núverandi Herjólfs.

Fyrirtæki í ferðamannageiranum, hótel og önnur slík, í Vestmannaeyjum verða fyrir miklum skakkaföllum þegar þau geta ekki reitt sig á siglingar ferjunnar og hafa fyrirtæki í Eyjum um langt árabil búið við aukna óvissu í þessu efni. Ekki er ofsögum sagt að atvinnurekstri blæði í Eyjum vegna ótryggra samgangna.

Ég ítreka það sem ég hef áður sagt, það þarf að ljúka við gerð Landeyjahafnar, og spyr því hæstv. ráðherra hvort hann sé mér sammála í þeim efnum að lengja þurfi hafnargarðana svo komast megi hjá sífelldum sandburði (Forseti hringir.) fyrir framan hafnarmynnið og inn í höfnina og gera með því höfnina nothæfa allt árið.