149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

Landeyjahöfn.

[15:44]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Varðandi síðustu fyrirspurn hv. þingmanns hef ég sagt hérna við einstaka þingmenn að þó að ég sé ráðherra samgöngumála er ég ekki sérfræðingur, hvorki í hafnargerð né vegagerð. Þess vegna mun ég ekki taka undir það með hv. þingmanni að það sé það eina rétta. Ég veit hins vegar, og hv. þingmaður veit það líka, að þróun sandhafna eins og Landeyjahöfn er tekur tíma. Menn þurfa að læra af reynslunni. Menn þurfa að setja upp líkön og prófa sig áfram og það er það sem er verið að gera.

Hver er hin nákvæmlega rétta leið? Ég veit að til eru margir sjálfskipaðir sérfræðingar. Kannski er hv. þingmaður með akkúrat svarið en ég hef ekki heyrt sérfræðinga Vegagerðarinnar vera á þeirri línu að þetta sé eina leiðin. Menn hafa verið að prófa aðrar leiðir og ég vona svo sannarlega að þær gangi eftir og ég vona svo sannarlega að nýtt skip, nýr Herjólfur, standi undir þeim væntingum sem við höfum, að frátafirnar verði eins litlar og hægt er. Við höfum líka sagt, og ég hef sagt það, að þangað til sú reynsla er komin á þarf gamli Herjólfur að vera til taks og geta siglt þarna á milli ef annað bregst. (Forseti hringir.) Væntingarnar eru miklar sem og vonirnar og ég er einn af þeim sem hafa miklar vonir og væntingar til þess að þetta gangi vel.