149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

vandi ungs fólks á húsnæðismarkaði.

[16:01]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Í lengstu samfelldu efnahagsuppsveiflu lýðveldissögunnar hefur ungt fólk orðið eftir, þrátt fyrir aukinn kaupmátt og mikinn hagvöxt. Tekjuávinningur menntunar fer stöðugt minnkandi og fólk í námi þarf sífellt að borga hærri leigu og oft og tíðum himinhá námslán sem það sér aldrei fram á að klára að greiða upp.

Jafnvægi vinnu og einkalífs og starfsöryggi ungs fólks fer versnandi og enginn hópur kemur eins illa út úr mælingum á streitu, einmanaleika og óhamingju.

Það er því kannski ekki skrýtið að ungt fólk treysti sér ekki til að stofna fjölskyldur og eignast þess vegna börn mun siðar á ævinni en fyrri kynslóðir.

En beinum sjónum okkar aðeins að stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaði. Hlutdeild ungs fólks sem á húsnæði fer lækkandi og fasteignaverð hefur hækkað langt umfram það sem flestir geta lagt til í sparnað. Í stað þess að takast á við hinn raunverulega vanda, þ.e. skort á hagkvæmu húsnæði á viðráðanlegu verði, hefur ungt fólk verið hvatt til að nota séreignarsparnað sinn á útblásnum fasteignamarkaði til að steypa sér í skuldir.

Leigumarkaðurinn er enn verr staddur. Hvergi á Norðurlöndunum er leiguverð hærra hlutfall af tekjum hjá lágtekjuhópum en hér, langt umfram þau viðmið sem teljast ásættanleg. Lágtekjufólk á Íslandi borgar um 50% af tekjum sínum i leigu. Það gerir það að verkum að sífellt fleiri búa í foreldrahúsum eins lengi og hægt er, enda fer kaupmáttaraukningin ekki til þeirra heldur til eldri kynslóða.

Forseti. Tillögur átakshóps um framboð á íbúðum sem kynntar voru fyrir skemmstu hljóma margar hverjar ágætlega. Ég ákvað þó að tala næstum ekkert um þær hér í dag. Ástæðan er einföld. Fjölmargar hugmyndanna kosta peninga, peninga sem ég tel frábært að verja í baráttu fyrir húsnæði fyrir alla. Því bíð ég spennt eftir næstu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar þar sem koma mun í ljós hvort eitthvað eigi að gera. Þangað til eru þessar tillögur bara fallegur óskalisti, orð á blaði á tímum þar sem við þurfum sárlega á aðgerðum að halda.