149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

vandi ungs fólks á húsnæðismarkaði.

[16:03]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Vandi ungs fólks á húsnæðismarkaði hefur verið viðvarandi lengi. Það á að vera sjálfsagður hlutur að ungt fólk geti fótað sig á húsnæðismarkaði, hvort sem er um leigumarkað að ræða eða fyrstu kaup. Það er því ánægjulegt að sjá afrakstur starfshóps sem forsætisráðherra skipaði, hann skilaði af sér góðum tillögum og það myndaðist breið og góð samstaða um þær og nauðsynlegt að þeim verði hrint í framkvæmd sem fyrst. Þar á meðal eru tillögur um að Íbúðalánasjóður láni til óhagnaðardrifinna íbúðaleigufélaga á hagstæðari kjörum en aðrir fá. Við þekkjum lögin um almennar íbúðir sem hafa reynst vel.

Vandi ungs fólks er einnig sá að það á erfitt með að fjármagna útborgun við fyrstu kaup á íbúð. Nú er að störfum, eins og komið hefur fram, starfshópur sem leitar lausna í þeim efnum. Það er auðvitað blóðugt að geta ekki fest kaup á húsnæði þegar greiðslubyrðin er sú sama á mánuði hvort sem maður kaupir eða leigir, en þröskuldurinn er að fjármagna útborgun.

Ungt fólk á að hafa möguleika á að velja þær leiðir í húsnæðismálum sem því henta. Eins og staðan er í dag á höfuðborgarsvæðinu vantar auðvitað sárlega minni íbúðir á viðráðanlegu verði til leigu eða kaups. Fólk hrekst aftur í föðurhús eða í ósamþykkt húsnæði eða flytur til útlanda. Ég vil einnig nefna að mér finnst brýnt að skoða möguleika á því að ungt fólk af landsbyggðinni sem sækir framhaldsskólanám á höfuðborgarsvæðinu hafi möguleika á húsnæði sem sérstaklega er ætlað þeim nemendum, því það eru einungis til staðar nemendagarðar fyrir háskólanema, sem er auðvitað nauðsynlegt að halda áfram að byggja upp. Það er mikil þörf fyrir heimavist á höfuðborgarsvæðinu fyrir framhaldsskólanema af landsbyggðinni til að styðja við jafnrétti til náms.

Vandinn á landsbyggðinni er líka mikill og þar er mjög erfitt (Forseti hringir.) fyrir ungt fólk að fá lán hjá banka allra landsmanna þar sem veðin eru ekki jafn merkileg á minni stöðunum.