149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

vandi ungs fólks á húsnæðismarkaði.

[16:12]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Húsnæðismálin hafa lengi verið í ólestri og áhugaleysi stjórnvalda hefur valdið krísuástandi. Það kemur verst niður á stöðu og kaupmætti ungs fólks.

Nýlegar tillögur átakshóps ríkisstjórnarinnar eru góðar og gildar, svo langt sem þær ná, og þær eru að mörgu leyti mjög áþekkar tillögum Samfylkingarinnar frá því í haust. En þær koma allt of seint og þær eru algjörlega ófjármagnaðar.

Miðað við að það var ekki vilji til þess að auka fjármagn til stofnframlaga eða í vaxta- og húsnæðisbætur, eins og Samfylkingin lagði til í breytingartillögu, set ég bara töluvert spurningarmerki við metnað ríkisstjórnarinnar. Fátæktargildran sem ungt fólk lendir í ef foreldrar geta ekki styrkt það til húsnæðiskaupa er bara ein birtingarmynd misskiptingar hér í landinu. Önnur birtingarmyndin er að fólk undir þrítugu hefur aukið ráðstöfunartekjur sínar fimm sinnum minna en við sem erum yfir fimmtugu.

Með síhækkandi húsnæðisverði á leigumarkaði er verið að kasta þessu unga fólki í fangið á gróðabröskurum.

Tillögur átakshópsins sem ég nefndi hérna áðan eru ágætar til styttri tíma en hjálpa ekkert þessu fólki sem er núna á erfiðum markaði. Við í Samfylkingunni lögðum til aðgerðir, m.a. um startlán að norskri fyrirmynd, til að hjálpa fólki sem fær ekki hefðbundið lán til að komast strax í íbúð. Þá gerðum við einnig ráð fyrir því að vaxta- og húsnæðisbætur hækkuðu meira og við hljótum að leggjast með fullum þunga á að það verði gert.

Herra forseti. Við þurfum a.m.k. að gera talsvert.