149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

vandi ungs fólks á húsnæðismarkaði.

[16:19]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Einn hv. þingmaður sagði áðan: Við þurfum að gera talsvert. Ég vil segja: Við höfum gert margt, sérstaklega í Mosfellsbæ og nágrannasveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Ég ætlaði að taka ákveðinn þátt í þessu máli því að húsnæðismarkaðurinn er gríðarlega stórt mál. Það eru margir angar af því. Ég ætla að ítreka að við köllum þetta húsnæðismarkað af því að þetta er markaður þar sem framboð og eftirspurn ræður verði. Að sjálfsögðu er ástæða til þess að hluti þessa markaðar sé inni í félagslega kerfinu en við megum aldrei ganga það langt að ætlast til þess að húsnæðismarkaðurinn sé allur eitthvert félagslegt kerfi. Það þarf að vera til staðar fyrir þá sem á þurfa að halda en annars er þetta markaður.

Og markaðurinn ræðst af framleiðslunni, hversu mikið er framleitt. Það er sama hversu oft við ræðum þetta í þingsal eða skoðum glærur úti í ráðhúsi, við það bætast ekki við fasteignir á höfuðborgarsvæðinu, alveg sama hvað við rífumst um hvað við ætlum að setja mikinn pening í þetta. Það þarf fólk til að byggja þessar íbúðir.

Mig langar að minna á að í landsskipulagi sem samþykkt var hér 2015–2016 og átti að taka til áranna 2015–2026 er í kafla 3.2.2 talað um hagkvæma uppbyggingu:

„Í skipulagsáætlunum sveitarfélaga verði mörkuð stefna um uppbyggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis sem taki mið af fyrirsjáanlegum þörfum samfélagsins og lýðfræðilegum breytingum til framtíðar. Stuðlað verði að fjölbreyttum húsnæðiskostum, svo sem hvað varðar húsagerðir og stærðir. Tryggt verði fjölbreytt og sveigjanlegt húsnæði sem stuðli að félagslegri fjölbreytni og í því samhengi verði hugað sérstaklega að framboði á húsnæði fyrir alla tekjuhópa.“

Það er langt síðan við sögðum þetta. Við erum búin að tala um þetta í öll þessi ár og þess vegna segi ég bara: Hvað er að frétta?

Í ágætri landsskipulagsstefnu var líka mörkuð sú stefna að við þyrftum að hafa upplýsingar um stöðuna á markaðnum. Til þess var þjóðskrá, Skipulagsstofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga falið það verkefni að taka saman allar þær upplýsingar sem liggja fyrir hjá sveitarfélögum. Við vitum hvað þetta er mikið á skipulagi. Við vitum fyrir hverju er búið að veita byggingarleyfi og hversu stórar þessar íbúðir eru. Við tölum um rafræna stjórnsýslu en samt erum við enn þá að tala um sama þáttinn.

Þrátt fyrir að upplýsingarnar (Forseti hringir.) liggi fyrir verður þetta að koma saman í einhvern gagnagrunn þannig að markaðurinn hafi upplýsingar um hvað sé að fara af stað í ár og á næstu árum.

Þannig helst virkar markaðurinn best. Hann þarf upplýsingar til að geta uppfyllt þau skilyrði sem við ætlumst til af honum.