149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

vandi ungs fólks á húsnæðismarkaði.

[16:22]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ef við horfum á það hversu líklegt er að þessar tillögur allar komist til framkvæmda skulum við byrja á því að spyrja: Hver var áætlun ríkisstjórnarinnar þegar hún setti saman stjórnarsáttmálann? Í stjórnarsáttmálanum ná húsnæðismál yfir eina og hálfa blaðsíðu en það er rosalega lítið þar inni. Það er talað um aðstæður tekjulágra og ungra við að komast inn á markaðinn en það eru tvær línur. Þetta er rosalega magurt. Það er vissulega talað um upplýsingar og þar er talað um að taka hugsanlega verðtrygginguna út úr vísitölunni og eitthvað svona. Það er mjög magurt. Síðan gerist annað, það verður vor í verkó og verkalýðshreyfingin fer af stað. Verkalýðshreyfingin fer að setja þrýsting á stjórnvöld um að koma að lausn á vanda, m.a. vanda húsnæðismála. Ókei, það má telja þessari ríkisstjórn það til tekna að hún fór þó af stað og endaði með þennan átakshóp um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði.

Þar eru ASÍ, Bandalag háskólamanna, BSRB, Samtök atvinnulífsins, Íbúðalánasjóður og fleiri. Það er gott. Aftur var settur annar starfshópur sem á sérstaklega að skoða ungt fólk í þessu samhengi. Hann er enn þá að störfum. Margt gott er í þeirri niðurstöðu sem hefur komið frá átakshópnum eins og er og hefur verkalýðshreyfingin almennt lofað hana í hástert en jafnframt nefnt að samt sem áður þurfi að sjálfsögðu að hækka launin líka og þetta kemur ekki í veg fyrir það.

Þetta gæti klárlega auðveldað lendingu kjarasamninga. Staðreyndin er sú að frá 2011–2016 jókst kaupmáttur 20% tekjulægsta hópsins um ein 34% en aftur á móti hækkaði lýsitalan hjá Hagstofunni tvöfalt þannig að við vitum að staðan er mjög slæm. Hversu líklegt er að ríkisstjórnin framkvæmi raunverulega þessar hugmyndir? Við munum sjá fyrstu vísbendingu um það hvernig fjármálaáætlun birtist eftir tvo, þrjá mánuði. Er eitthvað inni í þessari áætlun þar? Þar verður fyrsta vísbendingin en horfum síðan á fylgi flokkanna. Ég vil benda Vinstri grænum á að samkvæmt skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Pírata er þetta mál (Forseti hringir.) sem varðar konur hvað mest. Ég bendi líka fólki á að þetta er mál sem varða ungt fólk mest. Þar er langmest talað um að þetta varðar það og þetta varðar tekjulága.