149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

vandi ungs fólks á húsnæðismarkaði.

[16:24]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna. Staða ungs fólks og tekjulágra á húsnæðismarkaði er aðkallandi verkefni og mikilvægt að nálgast það ekki aðeins út frá séreignarstefnu heldur einmitt út frá valfrelsi og valmöguleikum fyrir þessa hópa.

Ég fagna líka niðurstöðum átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði sem vitnað hefur verið í hér. Þar eru margar ágætar tillögur og kortlagning; hægt er að lesa út úr þeim niðurstöðum til að mynda það að heimilum á leigumarkaði fjölgaði um 60% á milli áranna 2006 og 2016 en heildarfjöldi heimila í landinu jókst einungis um 14% á sama tímabili.

Meiri hluti leigjenda er ungt fólk og heimilistekjur meiri hluta leigjenda eru á bilinu 250.000–800.000 kr. á mánuði. Húsnæðiskostnaður heimilanna hefur hækkað langt umfram verðlag og laun. Ungt fólk og tekjulágir eiga erfiðara með að kaupa eigið húsnæði og ófremdarástand hefur ríkt á leigumarkaði.

Þegar við erum að fjalla um húsnæðismál ungs fólks verðum við að gera það sem við getum til að stuðla að heilbrigðari leigumarkaði og einnig heilbrigðara framboði af ódýrara húsnæði. Markmiðið er að á íslenskum húsnæðismarkaði starfi jafnframt óhagnaðardrifin húsnæðisfélög sem tryggi framboð á viðunandi húsnæði á viðráðanlegu verði fyrir hópa sem um ræðir eins og fram kemur í þessum tillögum.

Síðan skulum við líka líta til þeirra tillagna sem fjalla um það að leita annarra leiða til að auka framboð hagkvæmra íbúða, hvort sem er til kaups eða leigu. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að vera mjög ósammála hv. þingmönnum Þorsteini Sæmundssyni og Bryndísi Haraldsdóttir um að það sé markaðarins að leysa þetta málefni vegna þess að við sáum annað á frumkvæði Reykjavíkurborgar í málefnum ungs fólks sem kynnt var á fundi borgarstjóra í nóvember sl. Þá var kynnt verkefnið 500 hagkvæmar íbúðir fyrir ungt fólk sem er burðarás í húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar (Forseti hringir.) sem var samþykkt 2017.

Það er hægt ef vilji er fyrir hendi hjá bæði ríki og sveitarfélögum að koma fram félagslegum áherslum og þar með að koma til móts við ungt fólk, ungar fjölskyldur, þegar kemur að því að tryggja fólki öruggt þak yfir höfuðið. Það eru til lóðir og það er til pólitískur vilji, ólíkt því sem hv. þingmenn Þorsteinn Sæmundsson og Bryndís Haraldsdóttir sögðu áðan í sínum ræðum.