149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

vandi ungs fólks á húsnæðismarkaði.

[16:27]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Það sem er brýnast þegar kemur að því að leysa þann vanda sem hefur verið á húsnæðismarkaði er að tryggja stöðugt og nægt framboð af lóðum undir húsnæði og þá ekki bara að það sé nægt framboð heldur nægt framboð af réttu húsnæði. Þar hefur skipulagsfyrirkomulag okkar brugðist á undanförnum misserum þar sem við sjáum m.a. ljóslifandi í miðborginni að hér er búið að byggja of mikið af dýrum lúxusíbúðum á meðan verulegur skortur er á ódýru, hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk. Þarna þurfum við að gera betur.

Það er gott að sjá að í tillögum starfshóps forsætisráðherra er m.a. tekið á því, líkt og var gert í tillögum síðustu ríkisstjórnar, að sveitarfélög, bæði sameiginlega á höfuðborgarsvæðinu og líka á suðvesturhorni landsins og sambyggðum atvinnusvæðum um allt land, taki höndum saman um að tryggja nægt framboð íbúða af réttri stærð og gerð.

Það er búið að gera mjög margt, m.a. með almenna íbúðakerfinu og aukinni áherslu á uppbyggingu stúdentaíbúða og félagslegs húsnæðis, til að reyna að mæta öllum tekjulægstu endunum. Það er hins vegar enn þá mjög hrópandi vandamál hvernig ungt fólk sem vill eignast eigið húsnæði getur gert það.

Þar eru fjölmargir þættir sem hægt er að skoða og ég fagna því að hæstv. ráðherra nefnir hér að það sé sama hvaðan góðar hugmyndir koma. Þó að við höfum glatað ári með því að hafa ekki unnið eftir húsnæðistillögum síðustu ríkisstjórnar, sem eru samhljóða þeim sem nú hafa komið fram, er í þinginu frumvarp sem við í Viðreisn lögðum fram um að útvíkka séreignarákvæðið sem ég held að sé mjög vel til þess fallið að hjálpa sérstaklega tekjulágu ungu fólki til að leggja fyrir til fyrstu kaupa, með því að nota skylduhluta lífeyrissparnaðarins, þann sem heimilt er að veita í séreign til þessa. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli til að hjálpa fólki (Forseti hringir.) að kljúfa það fyrsta erfiða skref sem er að safna fyrir höfuðstól. Svo verður auðvitað ekki hjá því komist að minnast á hið augljósa, fílinn í herberginu, sem hæstv. ráðherra gerði lítið úr, (Forseti hringir.) en það er vaxtakostnaðurinn. Hann er svimandi hár hérna og tengist óhjákvæmilega myntinni okkar og þeim óstöðugleika sem henni fylgir.

Hæstv. ráðherra. Það skiptir verulega miklu máli að ganga (Forseti hringir.) í Evrópusambandið og lækka vexti. (Félmrh.: … skemma svona góða ræðu …)