149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

vandi ungs fólks á húsnæðismarkaði.

[16:30]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil líka tala um fílinn í þessu sambandi, okurvexti, og ég gleymi ekki verðtryggingunni. Mig langar að minna á það að á fimm ára tímabili, 2012–2017, höfðu verðbætur á íbúðalán vegna almennra verðlagshækkana numið 15 milljörðum kr., en á þessu sama tímabili hafa 118 milljarðar lagst ofan á verðtryggð íbúðalán vegna áhrifa húsnæðisliðarins. Hlutur húsnæðisverðs í verðbótunum er sem sagt hvorki meira né minna en 88,7%. Hugsið ykkur, okurvextir og þessi húsnæðisliður.

Hæstv. ráðherra. Ég efast ekki um að þú getir hnyklað kögglana og gert eitthvað í málinu vegna þess að ef það er eitthvað til lengri tíma litið sem kemur til með að skila sér til unga fólksins okkar og veita því ákveðið öryggi, þau vita aldrei hvort þau eru að koma eða fara og hvað er að gerast í okkar virkilega óstöðuga krónusamfélagi, verðum við að gera eitthvað til að tryggja öryggi þessa fólks. Þar fyrir utan virðist vera alveg ómögulegt þegar við erum með þetta greiðslumatskerfi sem við erum með núna að unga fólkið, sem er ekki fjárhagslega burðugt til að standa í þessum okurvöxtum og öllu því okri sem að því er rétt, fær ekki einu sinni greiðslumat. Hvað getum við gert þar þegar þau eru talin fær um að greiða 200.000 kr. á mánuði í húsaleigu en ekki 150.000 kr. af fasteignalánum? Er ekki einhvers staðar þarna pottur brotinn sem vert er að skoða til þess virkilega að aðstoða þau af heilum hug?